Hefur lagt mikla vinnu í málið

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að rangt sé að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi ekki lagt í að taka fyrir mál Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings og fyrrverandi eiganda BM Vallár, varðandi það hvernig síðasta ríkisstjórn stóð að stofnsetningu nýju bankanna í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Þvert á móti hafi mikil vinna verið lögð í málið af hálfu nefndarinnar og væntanlega verði tekin afstaða á næstunni til framhalds þess. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Karls í morgun.

„Verð var við það á samfélagsmiðlum að sumir telja að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi ekki þorað að taka á máli Víglundar Þorsteinssonar. Það er alrangt. Mikil vinna hefur verið lögð í að skoða það mál, undir góðri forystu Brynjars Níelssonar. Aflað hefur verið upplýsinga frá fjölmörgum öðrum aðilum en Víglundi og viðbótargögn, sem varpa nýju og betra ljósi á málið, liggja fyrir.. Þetta hefur verið tímafrek, en nauðsynleg vinna. Nefndin mun því væntanlega taka afstöðu til framhaldsins alveg á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert