205 milljónir urðu að 4,8 milljónum

AFP

Tipparinn sem var einum leik frá því að vinna 205 milljónir fór ekki heim með tvær hendur tómar, því hann vann 4,8 milljónir fyrir 12 rétta af 13, auk ýmissa aukavinninga. Athygli vekur að miði mannsins var sjálfvalinn, svo það væri nærri lagi að tala um getspaka tölvu.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að þegar 12 leikjum var lokið á enska getraunaseðlinum síðasta laugardag var einn Íslendingur með alla 12 leikina rétta og þurfti sigur Liverpool í leik liðsins gegn Bolton til að vera einn með alla leikina 13 rétta og 205 milljónum króna ríkari. Áður hafði verið sagt að vinningurinn gæti orðið 210 milljónir, en gengisbreytingar orsökuðu þessa breytingu.

Því miður fyrir tipparann endaði leikurinn með jafntefli og fær tipparinn því rúmar 3 milljónir fyrir 12 rétta. Um var að ræða sjálfvalsseðil upp á 60 raðir sem kostaði 1.020 krónur.  

Tipparinn hefur sótt vinning sinn. Hann keypti sjálfvalsmiða, er ekki mikill sérfræðingur í knattspyrnu og hafði ekki hugmynd um að það væri vinningur á miðanum þegar hann lét renna honum í gegn um sölukassann. Því síður vissi hann að það valt á úrslitum síðasta leiksins, leiks Liverpool og Bolton að hann yrði einn með 13 rétta og 205 milljónum króna ríkari.

Hann fékk 4,8 milljónir króna í vinning og var nokkuð sáttur með það, þó svo að 205 milljónir hefðu komið sér vel í eftirlaunasjóðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert