Dalsbúar langþreyttir á glannaakstri

Hraðakstur er mikið og vaxandi vandamál á Þingvallavegi.
Hraðakstur er mikið og vaxandi vandamál á Þingvallavegi. mbl.is/Ernir

Íbúar Mosfellsdals eru orðnir langþreyttir á sívaxandi glannaakstri á Þingvallavegi. Þeir krefjast þess að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ beiti sér í málinu og grípi tafarlaust til aðgerða. „Umferðarþunginn á veginum hefur aukist ár frá ári og er hraðaaksturinn orðinn rosalegur,“ segir Signý Hafsteinsdóttir, íbúi í Mosfellsdal, í samtali við mbl.is.

Íbúarnir afhentu Bryndísi Haraldsdóttur, formanni skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, mótmælabréf í hádeginu í dag. Signý segir að Dalsbúar óski eftir því að þjóðvegurinn verði færður í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að aðalumferðin fari ekki í gegnum Mosfellsdal. Vilja þeir að Vegagerðin finni sér aðra stofnbraut sem fyrst til að taka við þessum vaxandi umferðarþunga.

Signý bendir jafnframt á að íbúarnir vilji að vegurinn verði gerður að sveita- og hverfisvegi. „Við erum að þrýsta á að Mosfellsbær og Vegagerðin hugi að annarri stofnbraut sem tengingu á milli byggðarlaga. Og auk þess krefjumst við þess að Vegagerðin minnki veghelgunina niður í fimmtán metra frá miðlínu,“ segir Signý og bætir við að veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar sé „óþarflega frekar gagnvart landeigendum og skerði eignarrétt þeirra“.

„Allt skipulag Mosfellsdalsins er eiginlega í gíslingu þessarar vegar. Þar sem um þjóðveg er að ræða mega til dæmis ekki vera hraðahindranir og má ekki heldur minnka hámarkaðshraðann. Það má ekki þetta, það má ekki hitt.“

Hraðakstur vaxandi vandamál

Aðspurð segir Signý að hraðakstur á Þingvallavegi sé vaxandi vandamál. Hann bæði skerði lífsgæði í dalnum og skapi viðvarandi hættuástand á veginum.

„Fólki virðist liggja rosalega mikið á. Það er kannski búið að keyra langa leið og er að koma í bæinn. Þarna er beinn og breiður vegur og gefa þess vegna margir í. Maður brýnir fyrir börnunum sínum að fara ekki yfir veginn og helst ekki vera nálægt honum. Maður hefur séð bíla hendast af veginum og upp á göngustíg. Þetta er óþolandi ástand, verst á sumrin og alveg sérstaklega um helgar.“

Signý bindur vonir sínar við að Bryndís, sem og aðrir í bæjarráði Mosfellsbæjar, geri hvað hún geti til að finna lausn á málinu. Aðgerða sé þörf.

Íbúar Mosfellsdals segja að mikill hraðakstur skerði lífsgæði í dalnum. …
Íbúar Mosfellsdals segja að mikill hraðakstur skerði lífsgæði í dalnum. Frá kröfugöngu í dalnum sumarið 2013. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert