„Ólöglega rukkað undir blaktandi fána“

Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði við umræðu um náttúrupassann á Alþingi er hófst nú á fimmta tímanum í dag að landsmenn læsu um í blöðum og heyrðu því haldið fram á ljósvakanum að skapast hefði neyðarástand á Íslandi. „Hér er of djúpt í árina tekið,“ sagði Ögmundur.

Nú fer fram framhald fyrstu umræður um náttúrupassann og hófst umræða rétt eftir kl. 17 í dag. 

Sagði Ögmundur það vissulega rétt að ágangur ferðamanna væri mjög mikill samhliða síaukinni ásókn ferðamanna til Íslands. Oft væri mikil fjöldi ferðamanna á Þingvöllum, á Gullfossi og á Geysi, þar væri oft mikil örtröð en samt sem áður væri ekki um neyðarástand að ræða.

Sagði Ögmundur að miklar breytingar hafi orðið við Gullfoss að undanförnu, en þar hafi meðal annars verið gerðir stígar. Heimsótti hann Geysi hátt í tuttugu sinnum á síðasta ári og greiddi aldrei. „Ég hef mesta samúð með landeigendum sem hafa yfir að ráða viðkvæmum náttúruperlum og hafa ekki haft tök á því að skapa þar viðeigandi aðstæður,“ sagði Ögmundur.

Ætla einhverjir að gera landareignir að féþúfu?

Velti hann fyrir sér hvort einhverjir hafi ætlað að gera landareignir sínar að féþúfu með að nýta heimildina til gjaldtöku og hvort ríkið hefði gengið of langt í samstarfi við þessa einstaklinga.

Sagði Ögmundur svona væri staðan við Kerið í Grímsnesi. „Þar er ólöglega rukkað undir blaktandi fána íslenska lýðveldisins,“ sagði hann og bætti við að skúrinn þar sem gjaldtakan fer fram stæði á bílastæði sem Vegagerð ríkisins gerði á sínum tíma.

Sagðist Ögmundur einna helst hallast að gistináttagjaldi í stað náttúrupassa.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, svaraði Ögmundi og sagði mikilvægt að missa ekki sjónar á því hvað fjallað væri um, að koma íslenskri náttúru til varnar.

Sagði hún að sér finnist málinu ekki til framdráttar að ýjað væri að því að einhverjir væru að skapa neyðarástand og sjá tækifæri til að græða peninga. Sagði hún að bregðast þyrfti við að gæta þess að náttúran bæri ekki frekari skaða.

Þá svaraði Ögmundur og sagðist verða að segja það sem hann telji sannast og réttast, að frumvarpið snúist um að koma landeigendum til varnar en ekki náttúru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert