Slökkt á gamla dreifikerfinu

Stefán Sigurðsson, Ólöf Nordal og Magnús Geir Þórðarson í sendistöðinni …
Stefán Sigurðsson, Ólöf Nordal og Magnús Geir Þórðarson í sendistöðinni á Vatnsendahæð í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Nordal innanríkisráðherra slökkti í dag á hliðrænu dreifikerfi Ríkisútvarpsins í sendistöð RÚV á Vatnsendahæð. Um er að ræða tímamót í fjarskiptasögu landsins en kerfið hefur verið í notkun frá því sjónvarpsútsendingar hófust 1966.

Meðal viðstaddra voru Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og Stefán Sigurðsson forstjóri Vodafone.

Útsendingar fara nú alfarið fram á stafrænu dreifikerfi, en samhliða þessum áfanga er unnið að því að opna fyrir útsendingar í háskerpu. Nýja dreifikerfið, sem er samstarfsverkefni RÚV og Vodafone, nær til yfir 99,9% heimila landsins og getur RÚV nú sent út á tveimur rásum, RÚV og RÚV2, en önnur þeirra verður í háskerpu.

„Forsagan að uppbyggingu nýs dreifikerfis sjónvarps er sú að fyrir allnokkrum árum lá fyrir að útsendingar Ríkisútvarpsins þyrftu að fara úr hliðrænum sendingum yfir í stafrænar. Flestar aðrar Evrópuþjóðir hafa gengið í gegnum sams konar breytingar á síðustu árum. Samkvæmt Evróputilskipun lá fyrir að útsendingar hér á landi þyrftu að verða stafrænar. Ríkisútvarpið stóð fyrir útboði á dreifiþjónustu sem lauk með því að samningur var gerður við Vodafone árið 2013. Í kjölfar þess hófst uppbygging á nýju stafrænu dreifikerfi og samhliða því var byrjað að taka hliðræna kerfið niður. Á þessu tímabili hefur Ríkisútvarpið því að hluta til rekið tvöfalt dreifikerfi. 

Nýtt kerfi verður öruggara en hið gamla auk þess sem það nýtir mun minni orku en hið eldra og er því umhverfisvænna. Öll nýleg sjónvörp sem og öll sjónvörp sem tengd eru myndlykli ná stafrænum útsendingum. Fyrir eldri sjónvörp sem ekki eru tengd myndlykli er hægt að kaupa eða leigja stafrænan móttaka til að ná útsendingum nýja kerfisins,“ segir í tilkynningu frá RÚV.

Þar segir einnig að dreifikerfi RÚV hafi tvíþætt hlutverk; annars vegar að miðla fjölbreyttri dagskrá til landsmanna og hins vegar sé það mikilvægur hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar. Þá segir einnig að ljós sé að dágóðum hluta tekna RÚV verði áfram varið í viðhald og frekari uppbyggingu dreifikerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert