Bíða kaupmenn eftir vorskipunum?

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vandaði kaupmönnum ekki kveðjurnar á Alþingi í dag. Spurði hann hvort að verslunin væri ekki starfi sínu vaxin og biði eftir vorskipum með nýrri sendingu af sykri til að skila verðlækkunum vegna afnáms sykurskatts til neytenda.

Nú þegar rúmur mánuður er síðan breytingar voru gerða á virðisaukaskattkerfinu og sykurskattur og vörugjöld voru afnumin gerði Þorsteinn verðbreytingar hjá versluninni að umtalsefni í ræðu á Alþingi. Komið hafi fram tilvik um að hún hafi ekki skilað afnámi slíkra gjalda sem verðlækkunum til neytenda. Það væri óþolandi.

Þá vitnaði Þorsteinn í nýlegt viðtal við framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu þar sem hann hafði sagt að nokkrar vikur myndu líða þar til afnám sykurskatts skilaði sér að fullu til neytenda.

„Á maður að trúa því að kaupmenn hafi birgt sig upp af sykri og sykruðum vörum nokkrum vikum áður en fyrirhuguð lækkun átti að koma til framkvæmda? Eða er þetta þannig að það hafi engin þróun orðið hér í hundrað ár? Hafa menn birgt sig upp með haustskipinu og bíða svo spenntir eftir því vorskipið komi með nýjar birgðir? Hvers konar málflutningur er þetta?“ spurði þingmaðurinn.

Ef kaupmenn stæðu sig ekki betur en þetta væru þeir hvorki vanda sínum né verki vaxnir. Greinilegt sé að þeir sem svari fyrir verslunina á ofurlaunum séu ekki að skila árangri í samræmi við það sem þeim er greitt.

„Þessi tregða þeirra til að skila þeim skattkerfisbreytingum sem átti að gera hlýtur að kalla á sérstakar aðgerðir af hálfu þeirra sem hér sitja. Ég mun ekki telja það eftir mér vegna þess að þetta er eitt áhyggjuefnunum sem ég hafði við þessar skattkerfisbreytingar og ef þær eru að verða að veruleika þá verður tekið á því,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert