Enginn munur á Vöku og Röskvu?

Ofar til vinstri: mál sem eingöngu Vaka fjallar um, en …
Ofar til vinstri: mál sem eingöngu Vaka fjallar um, en Röskva er ekki á móti. Ofar til hægri: mál sem eingöngu Röskva fjallar um, en Vaka er ekki á móti. Neðar til vinstri: mál sem báðar fylkingar eru fullkomlega sammála um. Neðar til hægri: mál sem fylkingarnar eru ósammála um. Athugið að þar er bara blað sem á stendur "tómur bunki." Ljósmynd/Arnór Bjarki Svarfdal

Arnór Bjarki Svarfdal var fenginn til að stýra kappræðum, svonefndum Hanaslag, í aðdraganda kosninga til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hanaslagurinn fór fram í gær, en í tilefni af honum ákvað Arnór að kynna sér áherslumál fylkinganna tveggja, Vöku og Röskvu.

„Mér var falið að sjá um fund þar sem fulltrúar fylkinganna sætu fyrir svörum, og til þess að setja mig inn í málin ákvað ég að lesa í þaula stefnuskrár og greinaskrif þeirra,“ segir Arnór í samtali við mbl.is.

„Margir hafa velt því fyrir sér hver munurinn á þessum fylkingum sé í raun og veru, og hafa margir haldið því fram að hann sé vart merkjanlegur. Ég ákvað því að gera almennilegan kerfisbundinn samanburð og þetta er niðurstaðan,“ segir Arnór.

„Mér sýnist í raun að þessar fylkingar séu ekki á öndverðum meiði um neitt og ættu að geta unnið saman að flestum málum, enda eru hagsmunir stúdenta keimlíkir hvort sem þú kýst rautt (Röskvu) eða gult (Vöku),“ bætir hann við.

Áherslumunur en ekki eðlis

Hann segir muninn aðallega felast í áherslum fylkinganna.

„Mér sýnist t.d. Röskva leggja aherslu á hluti eins og jafnrétti til náms, aðgengi fjarnema og skiptinema, samskipti Stúdentaráðs við opinberar stofnanir og fleira í þeim hugsjónadrifna dúr, en að Vaka taki praktískari pól í hæðina og velti fyrir sér bættum kennsluháttum, betri lærdómsaðstöðu, Vendikennslu o.fl. Þarna takast á tvær fylkingar sem hafa sömu markmið, en önnur þeirra er ídealísk á meðan hin er pragmatísk.“

Í raun segir hann muninn vera sáralítinn, og að fylkingarnar geri hvað þær geta til að virka ólíkar hvorri annarrn. „Þau virðast nota mismunandi nálganir til að ná vinsældum fólks en í sannleika sagt held ég að þegar kjarninn málsins er skoðaður, hagsmunir stúdenta, þá sé erfitt að vera ósammála um grundvallaratriðin.

Það að ýkja þennan mun á fylkingunum er að mínu mati til þess fallið að búa til ósætti og flokkadrætti innan stúdentaráðs, og á endanum hlýtur það að koma niður á hagsmunabaráttu stúdenta. Innan beggja fylkinga er gáfað, duglegt og traust fólk, sem stúdentaráð þarf á að halda í samvinnu, en ekki samkeppni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert