Skemmdir meiri en talið var

Hér má sjá hvernig platan hangir á línunni.
Hér má sjá hvernig platan hangir á línunni. Ljósmynd/Landsnet

Aðstæður voru erfiðar fyrir viðgerðarmenn sem fóru á vettvang í dag til að ná bárujárnsplötu niður af Suðurnesjalínu 1 á Fitjum. Línuna leysti út kl. 13.06 en kl. 13.22 var ljóst að platan hefði fokið á línuna og hékk föst á henni.

Fyrir neðan fer stutt lýsing frá Landsneti um atburði dagsins:

Klukkan 13:06 í dag leysti Suðurnesjalína 1 út á Fitjum. Reynt var að setja línuna inn aftur en kl 13:22 var ljóst að bárujárnsplata hafði fokið á línuna og hékk föst á henni.   

Þegar ljóst var að aðskotahlutur væri á línunni, sem að mögulega hefði skemmt hana, var ræstur út vinnuhópur frá Landsneti sem hraðaði sér á staðinn. Veður var slæmt, mikill vindur og gekk á með dimmum éljabökkum. Aðstæður voru því nokkuð erfiðar fyrir viðgerðamennina, sérstaklega þá sem fóru í að ná bárujárnsplötunni niður af línunni. Vel tókst hins vegar til, þó að skemmdir á línunni reyndust meiri en talið var í fyrstu og lauk viðgerð klukkan 14:44.  Hófst þá þegar innsetning línunnar og fengu flestir notendur á Reykjanesi á rafmagn. Verr gekk þó að koma virkjunum á svæðinu í gang aftur og til að mynda komst ekki rafmagn á að fullu í Grindavík fyrr en um klukkan 15:40.

Tenging Reykjaness við meginflutningskerfi raforku er einungis um Suðurnesjalínu 1 og því er afhendingaröryggi á svæði háð ástandi hennar á hverjum tíma. Þar sem virkjanir á Reykjanesi voru ekki í rekstri þegar bilunin varð þurfti að grípa til skerðingar á orkunotkun hjá viðskiptavinum sem hafa samning um ótryggða orku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert