Listamenn eru atvinnumenn

Listamenn eru atvinnumenn í sínu fagi segir Kolbrún. Myndin er …
Listamenn eru atvinnumenn í sínu fagi segir Kolbrún. Myndin er úr safni. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Illugi var í raun bara mjög jákvæður fyrir því að ræða þessa hugmynd. Hann gaf auðvitað engin loforð eða ádrátt, en þetta var frjó og góð umræða sem Bandalag íslenskra listamanna mun halda áfram.“ Þetta segir Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL, en um helgina stóð bandalagið fyrir málþingi þar sem m.a. var leitað svara við spurningunni „Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?“

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hélt erindi á málþinginu og tók vel í hugmyndina um sérstakt ráðuneyti skapandi greina, að sögn viðstaddra.

Yfirskrift málþingsins var Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar, sem vísar að sögn Kolbrúnar til þess að það eru e.t.v. listamenn öðrum fremur sem standa vörð um íslenska tungu, en til að sinna því hlutverki þurfi þeir að hafa stuðning stjórnvalda.

„Okkur hefur fundist, að það sem Jakob Frímann [Magnússon] kallar skólamálaráðuneytið, sé um og of upptekið af menntamálum og þess vegna langar okkur að ræða það, og það varðar undirtitilinn, hvort við ættum ekki að freista þess að fá sjálfstætt menningarmálaráðuneyti,“ segir Kolbrún.

Eiga sinn fulltrúa við ríkisstjórnarborðið

Meðal þeirra sem héldu erindi á málþinginu voru Charlotte Bøving leikari og leikstjóri, Daði Einarsson listrænn stjórnandi, Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís og Þorleifur Arnarson leikstjóri. 

„Charlotte var fyrst og fremst að segja okkur frá menningarmálaráðuneytinu í Danmörku, þar sem listirnar eiga sérstakan málsvara við ríkisstjórnarborðið,“ segir Kolbrún. „Það sem mér fannst athyglisverðast þar, er að listaháskólarnir, þ.e.a.s. listaakademían, hún heyrir ekki undir menntamálaráðuneyti Danmerkur, heldur undir menningarmálaráðuneytið.“

Kolbrún segir að í erindi Daða Einarssonar, stofnanda RVX, hafi m.a. komið fram hvernig hann snéri aftur heima eftir farsælan feril í Bretlandi, þar sem hann langaði að vera búsettur hérlendis og skapa atvinnu fyrir Íslendinga. „Þetta var ótrúlega gefandi erindi hjá honum og sýndi okkur að hluta þessa sjálfstæðisbaráttuhugmynd; ég meina að við Íslendingar viljum bara fá að vinna á Íslandi, hvort sem við erum pípulagningarmenn, læknar eða listamenn,“ segir hún.

Listin hafi bæði eigið gildi og hagrænt gildi

Í dag tala menn oft um skapandi greinar þegar fjallað er um listir, en Kolbrún segir að ákveðinnar togstreitu gæti meðal listamanna varðandi listina sem atvinnugrein.

„Margir listamenn segja: „Við eigum aldrei að láta flækja okkur í því hversu miklu listin skilar í ríkiskassann, því listin hefur eigið gildi og það á að styrkja hana vegna þess.“ Eða hún á að hafa sama aðgang að opinberu fé og landbúnaður og sjávarútvegur,“ segir Kolbrún.

„Síðan aftur á móti er stór hluti listamanna, og sérstaklega þeir sem eru að vinna sem pródúsentar í listageiranum sem prómótera þessa hugmynd mjög sterkt, sem segja að við fáum aldrei skilning stjórnvalda nema við getum sýnt, svo óyggjandi sé, að við séum jafn mikilvæg hagkerfinu og aðrar greinar.“

Sjálf segist Kolbrún taka undir bæði sjónarmið; listin hafi bæði eigið gildi og hagrænt gildi. „Við erum atvinnumenn. Við sjáum fyrir börnunum okkar með launum sem við þiggjum fyrir að vera listamenn. Hins vegar hafa listaverkin sem við sköpum gildi sem verður ekki metið til fjár.“

Bandalag íslenskra listamanna var stofnað 1928 og eru elstu regnhlífasamtök listamanna í Evrópu. Undir það heyra 14 aðildarfélög listafólks og hönnuða, en félagar eru á fimmta þúsund talsins. Bandalagið er ráðgjafi í málefnum lista, bæði gagnvart ríkinu og Reykjavíkurborg.

Ráðuneyti skapandi greina?

Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL ásamt Margréti Blöndal.
Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL ásamt Margréti Blöndal. mbl.is/Ómar Óskarsson
Töfraflautan eftir Mozart í Hörpu.
Töfraflautan eftir Mozart í Hörpu. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert