Ekki hægt að fljúga innanlands

Það er mjög hvasst víða og slæm færð
Það er mjög hvasst víða og slæm færð mbl.is/Ómar Óskarsson

Enn hefur ekki verið hægt að fljúga innanlands en hjá flugfélaginu Erni er flug til Vestmannaeyja og Húsavíkur á athugun klukkan 10:15. Innanlandsflug hjá Flugfélagi Íslands er á athugun 11:15 og 11:30.

Fyrri ferð Herjólfs féll niður í morgun vegna ölduhæðar og veðurs. Athuga á með framhaldið klukkan 10, samkvæmt upplýsingum frá Herjólfi.

Það er víða bálhvasst og eins er færð slæm á helstu fjallvegum. 

Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum en hálka og skafrenningur á Sandskeiði og á Mosfellsheiði. Snjóþekja er víða í uppsveitum. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut.

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka og hálkublettir og él. Snjóþekja og stórhríð er á Holtavörðuheiði en ófært á Bröttubrekku. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Svínadal. Á Vestfjörðum er hálka, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur.

Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en þæfingsfærð, skafrenningur eða stórhríð á öðrum fjallvegum. Þæfingsfærð er í Súgandafirði en unnið að mokstri. Ófært og stórhríð er á Innstrandavegi.

Hálka, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur er á Norðurlandi. Hálka og skafrenningur er á Þverárfjalli en snjóþekja og skafrenningur á Vatnsskarði. Snjóþekja og snjókoma er á Siglufjarðarleið en ófært og óveður er á Öxnadalsheiði. Snjóþekja og hvassviðri er á Víkurskarði og Ljósavatnsskarði.

Á Austurlandi er víða greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Mikið hvassviðri er við Hvalnes. Hálkublettir eru austan við Vík og hálka austan við Kirkjubæjarklaustur. Mikið hvassviðri er við Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka