Bréfberi brást skyldum sínum

Pósturinn endurheimti póstinn óskemmdan frá bréfberanum sem starfar ekki lengur …
Pósturinn endurheimti póstinn óskemmdan frá bréfberanum sem starfar ekki lengur hjá fyrirtækinu. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Þorkell

Íbúar í hluta Hlíðahverfis fengu bréf inn um lúguna frá Póstinum á dögunum þar sem þeim var greint frá því að póstur sem stílaður var á þá hafi ekki borist þeim. Starfsmaður Póstsins hefði brugðist starfsskyldum sínum en pósturinn hafi fengist óskemmdur aftur frá honum. Bréfberinn starfar ekki lengur hjá Póstinum.

Að sögn Brynjars Smára Rúnarsson, markaðsstjóra Póstsins, fengu þeir íbúar bréfið sem áttu þann póst sem ekki hafði borist. Í því voru þeir beðnir afsökunar á atvikinu. Pósturinn hafi nú allur verið borinn út. Hann var stílaður á íbúa í Bólstaðarhlíð, Grænuhlíð, Skaftahlíð, Mávahlíð, Barmahlíð, Stakkahlíð, Drápuhlíð og hluta af Bogahlíð og Stigahlíð. Meirihluti þess pósts sem bréfberinn átti að bera út hafi komist til skila en einhver hluti hafi orðið eftir. 

Elsta bréfið sem ekki var borið út var frá 9. desember 2014 en það nýjasta var frá miðjum janúar. Brynjar segir bréfberann ekki starfa lengur hjá Póstinum en að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.

Spurður að því hvernig komist hafi upp um málið og hvort bréfberinn hafi sjálfur stigið fram segist Brynjar aðeins geta sagt að málið hafi uppgötvast. Í bréfinu sem sent var þeim sem ekki fengu allan póstinn sinn segir aðeins: „[...] við fengum póstinn óskemmdan frá honum fyrir stuttu“.

 Uppfært: Póstur var heldur ekki borinn út í tveimur öðrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nýja frétt mbl.is hér: Annar bréfberi bar ekki út

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert