„Mjög gott fyrir lýðræðið á Íslandi“

„Ég er mjög ánægð með dóminn og er afar stolt yfir því hvað Ísland hefur gert. Ísland er eina landið sem hefur dregið „bankstera“ til ábyrgðar og látið dæma þá,“ sagði Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, í símaviðtali frá París í gærkvöldi.

„Þetta er fordæmi fyrir aðrar þjóðir og dæmi um það sem hvorki Bandaríkjamenn né Bretar hafa gert. Þeir hafa ekki farið inn í banka og rannsakað þá. Í Bandaríkjunum voru lagðar gríðarháar sektir á banka en hins vegar látið ógert að rannsaka hverjir bæru þar persónulega ábyrgð,“ segir Joly.

Líkindi með Barclays-banka

„Al Thani-málið er dæmigert fyrir framgöngu banka ... Það er athyglisvert að forystumenn Kaupþings skyldu segja umheiminum að Al Thani hefði áhuga á að kaupa hlut í bankanum. Við vitum nú að það var ekki satt,“ segir Joly og rifjar upp fléttuna í þessum viðskiptum.

„Ég hefði viljað sjá sambærilega rannsókn á bresku bönkunum. Það má til dæmis sjá líkindi með þessu máli og framgöngu Barclays-banka.“

Spurð um það sjónarmið sem viðrað er í grein í Morgunblaðinu í dag, að reynt hafi verið að hafa áhrif á dómara í Al Thani-málinu, segist Joly hafa varað við þessu í sjónvarpsviðtali á Íslandi skömmu eftir efnahagshrunið.

„Þessir menn eru mjög valdamiklir og nota almannatengla til að hafa áhrif á almenningsálitið. Það góða við þróun mála á Íslandi er að dómskerfið hefur getað fylgt málum til enda. Það er mjög gott fyrir lýðræðið á Íslandi.“

Spurð út í þau ummæli Ólafs Þór Haukssonar, sérstaks saksóknara, að fjárþörf hamli embættinu við lokaúrvinnslu mála segir Joly að Íslendingar hafi hafið rannsókn á erfiðum tímum sem var svo mikil að umfangi að ekki séu dæmi um slíkt í Frakklandi. „Ef stjórnvöld skera á framlögin, þrátt fyrir góðan árangur, þýðir það að þau vilja taka sér stöðu með bankamönnum. Ég hvet stjórnvöld til að auka framlögin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert