Vilja afglæpavæða fíkniefnaneyslu

AFP

Ekki hefur reynst árangursríkt að draga úr neyslu fíkniefna eða koma fíklum til aðstoðar með núverandi refsistefnu að mati Ungra jafnaðarmanna sem vilja í stað hennar afglæpavæða fíkniefnaneyslu samkvæmt ályktun stjórnar samtakanna. Telja megi beinlínis óréttlátt að fólk lendi á sakaskrá fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna sem takmarki mjög atvinnutækifæri þess og ferðafrelsi til frambúðar.

„Þó að nokkuð stór hópur fólks prófi fíkniefni einhvern tíman um ævina, er sem betur fer fámennur hópur sem ekki ræður við neysluna og verða virkir fíklar. Rannsóknir sýna að þeir sem eiga við félagsleg, heilsufarsleg eða persónuleg vandamál að etja eru mun líklegri til að verða fíkn að bráð. Ungir jafnaðarmenn vilja því líta á fíkniefnaneyslu sem velferðar- og heilbrigðismál fremur en sem dómsmál. Fíklum þarf að vera unnt að leita sér aðstoðar án ótta um gríðarháar sektir og skerta atvinnumöguleika. Sérstaka athygli þarf að veita sprautufíklum, sem eru einhver sá allra viðkvæmasti hópur samfélagsins, sem glíma jafnan við mjög alvarleg heilsufarsleg eða persónuleg vandamál jafnhliða fíkninni. Ungir jafnaðarmenn leggja til að skoðaður verði sá möguleiki að koma upp skýlum fyrir sprautufíkla á höfuðborgarsvæðinu þar sem fíklar geta nálgast hreinar nálar, neyslan er færð í öruggt umhverfi og auðvelt er að nálgast upplýsingar til að leita sér aðstoðar við fíkn sinni kjósi þeir svo,“ segir ennfremur.

Áréttað er að fíkniefnaneysla sé skaðleg og varasöm og áfram þurfi að vinna markvisst og öflugt forvarnarstarf. „Afglæpavæðing þarf ekki að vera líkleg til að auka neyslu, né þarf afglæpavæðing að gefa það til kynna að fíkniefnaneysla sé samfélagslega samþykkt, svo lengi sem öflugt fræðslu- og forvarnarstarf fer fram meðfram varfærnislegum skrefum í átt til afglæpavæðingar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert