Fastur í níu tíma á Kleifaheiði

Skjáskot úr vefmyndavél Vegagerðarinnar frá Kleifaheiði.
Skjáskot úr vefmyndavél Vegagerðarinnar frá Kleifaheiði. Ljósmynd/Vegagerðin

Ökumaður flutningabíls hefur setið fastur uppi á Kleifaheiði frá því fyrir klukkan níu í morgun. Gerð var tilraun til að bjarga honum fyrr í dag en veghefill festist einnig áður en komist var að flutningabílnum. Önnur tilraun verður ekki gerð fyrr en veðrið gengur niður, og óljóst hvenær það verður.

„Það er ekkert hægt að gera núna, það er allt í snjóflóðum og það væsir svo sem ekki um hann í bílnum,“ segir Helgi Rúnar Auðunsson, eigandi flutningafyrirtækisins Nönnu sem á bílinn. „En ef það slær eitthvað á þetta verður farið strax og náð í hann og bíllinn skilinn eftir. Þetta er bara svo skrítið núna, það er svo blint og virðist ekkert lát á. Það er ekki þorandi að fara neitt.“

Eins og áður segir þá festi hefillinn sig við björgunaraðgerðir og komst því ekki að flutningabílnum. Ökumaður flutningabílsins ætlaði þá að ganga að heflinum en sá hann ekki. „Hann þorði ekki að ganga lengra af ótta við að villast þannig að hann sneri við í bílinn aftur, sem betur fer.“ Hefillinn er hins vegar kominn aftur til byggða.

Spurður hvort maðurinn sé óttasleginn segir Helgi Rúnar að svo sé ekki. „Hann sagðist ætla að fara leggja sig og bað mig að hafa engar áhyggjur af sér. Hann ætti eitt súkkulaðistykki, er með olíumiðstöð og hefur það fínt. Hann var ekki í neinni geðshræringu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert