Besta umfjöllun ársins var á mbl.is

Frá brunanum í Skeifunni.
Frá brunanum í Skeifunni. mbl.is/Golli

Ritstjórn mbl.is hlaut Blaðamannaverðlaunin 2014 í flokknum umfjöllun ársins fyrir umfjöllun sína um stórbrunann í Skeifunni í júlí. Verðlaunin tileinkar ritstjórnin blaðamanninum Agli Ólafssyni sem lést í janúar síðastliðnum. Egill starfaði hjá Morgunblaðinu í yfir tvo áratugi, aðallega á mbl.is seinni árin, og er sárt saknað af samstarfsmönnum sínum.

Í rökstuðningi dómnefndar er þess getið hvernig netið, snjallsímar og samskiptamiðlar hafa breytt fréttamiðlun og að lesendur geri kröfur um að hraða jafnt sem gæði.

„Þegar stórbruni varð í Skeifunni síðasta sumar sýndi ritstjórn mbl.is vel hvernig nýta má alla helstu kosti netsins og tækninnar til að færa lesendum skýra mynd af því sem var að gerast með hnitmiðuðum texta, myndum og myndskeiðum frá dróna úr lofti,“ segir í rökstuðningi dómnefndar. 

„Fréttaflutningurinn byrjaði fljótlega eftir að fyrst varð vart við brunann og stóð yfir þar til yfir lauk. Greint var frá brunanum og áhrifum hans frá fjölmörgum sjónarhornum og með góðu samspili blaðamanna og ljósmyndara sem auk þess notuðust við myndir af vettvangi frá almenningi.

Niðurstaðan var heildstæð og ítarleg umfjöllun sem minnti rækilega á hvað netið er öflugur fréttamiðill.“ 

Það er Blaðamannafélag Íslands sem stendur fyrir verðlaununum og voru þau afhend í Gerðasafni í Kópavogi nú síðdegis.

Ólöf Skaftadóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, hlaut verðlaunin í flokknum viðtal ársins og Helgi Seljan hjá Kastljósinu hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins. Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon hjá DV hlutu síðan Blaðamannaverðlaun ársins 2014 fyrir umfjöllun sína um lekamálið.

Hér að neðan má sjá fréttir mbl.is um Skeifubrunann.

Verðlaunahafar blaðaljósmyndaverðlauna ársins.
Verðlaunahafar blaðaljósmyndaverðlauna ársins. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Blaðamannaverðlaunahafar ársins.
Blaðamannaverðlaunahafar ársins. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Jón Pétur Jónsson, blaðamaður mbl.is og Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri …
Jón Pétur Jónsson, blaðamaður mbl.is og Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri mbl.is með verðlaunin. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert