Heimsóttu fyrirtæki og sungu

Karlakór Selfoss söng fyrir fólk víða á Selfossi í dag.
Karlakór Selfoss söng fyrir fólk víða á Selfossi í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Karlakór Selfoss fagnar 50 ára afmæli sínu í dag. Af því tilefni tóku kórfélagar sig saman og hafa þeir farið í fyrirtækjaheimsóknir og sungið víða á Selfossi í dag. Sigurdór Karlsson er eini stofnfélagi kórsins sem syngur enn með honum.

Kórinn ætti að vera í góðri þjálfun þar sem hann var við upptökur á geisladiski á laugardag, en diskurinn kemur út með vorinu. Þrátt fyrir að kórfélagar hafi gert sér glaðan dag í dag fer afmælishátíð kórsins ekki fram fyrr en á föstudaginn næstkomandi.

Á vefsvæði kórsins segir að hann hafi verið stofnaður 2. mars 1965 upp úr sönghóp sem hét „Söngbræður“. Sá hópur samanstóð að miklu leyti af starfsmönnum mjólkurbús Flóamanna en hópurinn kom saman til að skemmta á þorrablóti mjólkurbúsins.

„Ýmislegt hefur drifið á daga kórsins í gegnum tíðina en kjölfestunni var náð þegar kórinn eignaðist eigið æfingahúsnæði 1998. Síðan hefur þetta húsnæði verið stækkað og hefur vaxið líkt og fjöldi söngfélaga sem telja um 70 og hafa aldrei verið jafn fjölmennir,“ segir á vefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert