Nafnlausar ábendingar um bótasvik bannaðar

Tryggingastofnun hefur verið gert að fjarlægja ábendingahnapp á vefsvæði sínu en í gegnum hann hefur verið hægt að senda nafnlausar ábendingar um bótasvik.

Þetta kemur fram í nýlegum úrskurði Persónuverndar. Kvartandi benti í greinargerð sinni á að fyrirkomulag ábendingarhnappsins, eins og því væri fyrir komið, stæðist ekki lög meðal annars á þeim grundvelli að TR gætti ekki að rétti kæranda samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Í úrskurði sínum tók Persónuvernd fram að samkvæmt lögum um persónuvernd ætti hinn skráði rétt á vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig og einnig rétt á því að vita hvaðan upplýsingarnar kæmu. Í ljósi þess að hægt var að senda inn ábendingar án þess að gefa upp nafn eða netfang sendanda kæmi það í veg fyrir að hinn skráði gæti notið réttinda sinna. Þegar af þeirri ástæðu færi vinnsla Tryggingastofnunar í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig bæri Tryggingastofnun að láta af móttöku slíkra ábendinga.

Tryggingastofnun ríkisins hefur nú þegar orðið við úrskurðinum og tekið ábendingarhnappinn út af heimasíðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert