Flensurnar helltust yfir á sama tíma

Sóttvarnalæknir segir að bólusetning sé besta leiðin til að koma …
Sóttvarnalæknir segir að bólusetning sé besta leiðin til að koma í veg fyrir inflúensu þó árangurinn sé breytilegur á milli ára. AFP

Inflúensan virðist hafa náð hámarki í samfélaginu því farið er að draga úr útbreiðslu hennar. Fjöldi tilkynninga um inflúensulík einkenni náði hámarki í 7. viku, en hún er byggð á tilkynningum frá heilsugæslu og bráðamóttökum. Dregið hefur mikið úr þessum tilkynningum síðustu tvær vikur.

Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir sóttvarna hjá Embætti landlæknis, segir það taka allt að þrjár vikur til viðbótar fyrir flensuna að klárast, en hún sé þó í rénun. 

Þá segir hún álagið hafa verið meira en síðustu ár. „Þetta hefur ekki bara verið inflúensa A; þetta hefur líka verið inflúensa B, RS-veira, metapneumo-veira og fleira. Yfirleitt koma þær á mismunandi tímum en nú virðist þetta hafa hellst yfir okkur allt á sama tíma sem eykur þungann í þessu. Þetta er því ekki allt inflúensunni að kenna þó hún eigi stóran hluta af þessum veikindum.

Virkni inflúensu á meginlandi Evrópu fer einnig minnkandi í nokkrum löndum. Ráðandi stofn í flestum Evrópulöndum er inflúensa A(H3N2).

Ein­kenni in­flú­ensu eru meðal ann­ars höfuðverk­ur, háls­bólga, bein­verk­ir og al­menn van­líðan. Fólk er að meðaltali um viku að ná sér eft­ir in­flú­ensu, en eldra fólk getur þó verið í hálf­an mánuð að jafna sig. 

Fylgst hefur verið grannt með tölum um tilkynningar, en Guðrún segir þær tölur síður en svo segja alla söguna. Best væri að vakta fjarvistir í skóla, því þar myndi virkilega sjást það sem er að gerast í samfélaginu.

Bólu­setn­ing besta leiðin til að koma í veg fyr­ir in­flú­ensu

Komið hef­ur fram að bólu­setn­ing hafi ekki veitt þá vörn sem von­ast var eft­ir og flens­an því skæðari í ár. Guðrún segir flesta sem lent hafa á spítala vera óbólusetta, en það verði skoðað almennilega eftir faraldurinn hvernig bóluefnið hafi virkað. „Það er alltaf hætta því bóluefnið er ákveðið snemma árs og það sem gerist svo er að það verður breyting á stofninum sem er í útbreiðslu og þá getur þetta gerst þó það gerist oftast ekki. Þá hagar veiran sér eins og hún vill en ekki eins og við viljum.

Snemma árs sýndu rann­sókn­ir er­lend­is að bólu­efnið hafði minni virkni en gert var ráð fyr­ir á einn stofn in­flú­ens­unn­ar A(H3N2) sem þá var far­inn að láta á sér kræla. Um er að ræða sama stofn og hef­ur verið al­geng­ast­ur hér á landi á umliðnum vik­um. Þetta hefur verið rannsakað erlendis, en þrátt fyr­ir umræðuna er einnig ljóst að bólu­setn­ing þykir besta leiðin til að koma í veg fyr­ir in­flú­ensu þótt ár­ang­ur­inn sé breyti­leg­ur á milli ára.

Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir sóttvarna hjá Embætti landlæknis.
Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir sóttvarna hjá Embætti landlæknis. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert