Vilja auglýsa eftir sendiherrum

mbl.is/Hjörtur

Hér á landi hefur tíðkast að skipunarvald sendiherra og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins sé pólitískt og í höndum utanríkisráðherra hverju sinni. Ekki liggja fyrir skýr viðmið sem leggja skuli til grundvallar og er skipunarferlið ógagnsætt,“ segir í greinargerð með frumvarpi þingmanna Bjartrar framtíðar til breytinga á lögum um utanríkisþjónustuna þar sem lagt er til að embætti sendiherra og ráðuneytisstjóra verði auglýst eins og önnur störf.

Bent er á að á hinum Norðurlöndunum sé þessu öðru vísi farið. Þannig tíðkist ekki í Danmörku, Noregi og Finnlandi að einstaklingar sem ekki starfi þegar innan utanríkisþjónustunnar séu skipaðir í störf sendiherra án þess að staðan hafi fyrst verið auglýst laus til umsóknar. Lausar stöður sendiherra séu auglýstar innan utanríkisþjónustunnar þannig að starfsmönnum hennar gefist kostur á að sækja um. Ákvörðun um skipun sé síðan tekin á grundvelli faglegs mats á hæfi, árangri og frammistöðu umsækjenda.

„Telja verður að þau sjónarmið sem búa að baki skyldunni til að auglýsa opinber störf og birta upplýsingar um umsækjendur sé þess óskað hafi mjög mikið vægi með tilliti til vandaðrar stjórnsýslu í þágu almennings, jafnræðis og gagnsæis við meðferð opinbers valds. Hér er því um mjög veigamikla almannahagsmuni að ræða sem eiga jafnt við þegar skipað er í stöður í utanríkisþjónustunni og endranær. Sendiherrar og ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sinna afar mikilvægum störfum og verkefnum í þágu þjóðarinnar og er því mjög mikilvægt að val í þau störf byggist á hæfni og að jafnræðis sé gætt,“ segir ennfremur.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert