Dregur úr inflúensunni

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. AFP

Eitthvað hefur dregið úr inflúensunni á síðustu vikum eftir að hún náði hámarki í sjöundu viku ársins. Þetta er byggt á tilkynningum frá heilsugæslu og bráðamót­tök­um. Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hefur inflúensa A(H3) greinst í mörgum sýnum en einnig hefur verið töluvert um inflúensu B. 

Í síðustu viku greindust tveir einstaklingar með inflúensu A(H1) og hafa alls þrír greinst með þann stofn í vetur. Inflúensa A(H3) er því ráðandi stofn, sem hefur greinst langoftast í vetur, að því er segir á vef embættis landlæknis.

Samkvæmt þessu er virkni inflúensunnar eins og við er að búast á þessum tíma árs.

Virkni inflúensu á meginlandi Evrópu hefur einnig náð hámarki í flestum löndum og sums staðar dregur úr henni. Ráðandi stofn víðast hvar er inflúensa A(H3N2).

Enn er mikið álag er á Landspítala vegna öndunarfærasýkinga og annarra veikinda. Fjöldi innlagna náði hámarki í síðustu viku, en samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild Landspítala hefur dregið úr fjölda innlagna á síðastliðnum dögum. Stærstur hluti þeirra sem hafa þurft á innlögn að halda er eldri borgarar og/eða einstaklingar með undirliggjandi áhættuþætti, að því er segir í fréttinni.

Í síðustu viku bárust jafnframt 104 öndunarfærasýni til greiningar á veirufræðideild Landspítala, sem er svipað og í síðustu viku.

„Samkvæmt þessu eru nokkrar tegundir öndunarfæraveira að valda veikindum í samfélaginu, algengastar eru inflúensa A(H3), RSV, hMPV og inflúensa B en einnig er eitthvað um rhinoveiru og adenóveiru og stöku inflúensu A(H1). Líkur eru á að virkni þessara veira fari minnkandi á næstunni og að það dragi úr veikindum af völdum þeirra,“ segir sóttvarnarlæknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert