Kukl komi landlækni ekki við

Embætti landlæknis er til húsa í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg í …
Embætti landlæknis er til húsa í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg í Reykjavík mbl.is/Brynjar Gauti

Embætti landlæknis telur það ekki sitt hlutverk að hafa eftirlit með einstaklingum og fyrirtækjum sem setji fram gylliboð um lækningu á sjúkdómum og kvillum. Ekki sé hægt að koma í veg fyrir þau. „Ef það sem er sagt er of gott til að vera satt, þá er það bara ekki satt,“ segir Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri eftirlits og gæða hjá embætti landlæknis.

Undafarið hefur verið fjallað töluvert um ýmsar skottulækningar og gylliboð um meðferðir við illvígum sjúkdómum sem einstaklingar og fyrirtæki falbjóða fólki, stundum jafnvel dauðvona sjúklingum.

Anna Björg segir að ef menn selji eitthvað sem hugsanlega megi flokka sem lyf þá falli það undir eftirlit Lyfjastofnunar. Sé um fæðubótarefni að ræða falli þau undir eftirlit Matvælastofnunar. Þessi gylliboð séu falsauglýsingar sem Neytendastofa verði að láta til sín taka með. Það sé hins vegar ekki hlutverk embættis landlæknis að fylgjast með þessu heilsufalsi.

„Við höfum eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og þeim sem hafa leyfi. Ef einhver segist vera læknir eða heilbrigðisstarfsmaður en er það ekki gerum við athugasemdir við það. Það er ekki okkar hlutverk að hafa eftirlit með fólki sem er að selja alls konar vöru og efni. Þá gerðum við bara lítið annað,“ segir Anna Björg og vísar til lagalegs hlutversk embættisins.

Aldrei hægt að stöðva gylliboðin

Í staðinn hefur embættið varað fólk við að trúa svona gylliboðum, sérstaklega ef vara eða efni eigi að lækna marga mismunandi kvilla. Embættið birti meðal annars frétt á vefsíðu sinni á miðvikudag með ráðleggingum um hvernig fólk ætti að taka á hjálækningum. Þar segir meðal annars að hjálækningar geri sjaldnast gagn og að sjúklingar ættu að taka þess konar gylliboðum með varúð.

„Það er búið að vera í aldaraðir sem menn eru með svona gylliboð. Það mun alltaf koma eitthvað nýtt. Eina sem heilbrigðiskerfið getur gert er að biðja fólk um að vera gagnrýnið en það verður ekki hægt að stöðva svona gylliboð,“ segir Anna Björg.

Fyrri fréttir mbl.is

Zappkit ævintýraleg vitleysa

Féfletti krabbameinssjúkling

Fullyrðingum breytt eftir úrskurð ytra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert