„Fólkið fái til baka allan sinn ellilífeyri“

Guðrún Einarsdóttir liggur ekki á skoðunum sínum.
Guðrún Einarsdóttir liggur ekki á skoðunum sínum. mbl.is/Styrmir Kári

Það er baráttuhugur í Guðrúnu Einarsdóttur, ellilífeyrisþega og öryrkja á níræðisaldri, sem vakti athygli á því í síðustu viku að að hún ætti ekki rétt á lífeyri þar sem hún hefði dvalist á hjúkrunarheimili í sex mánuði. Hún hefur nú fengið framlengingu í þrjá mánuði en vill taka málið lengra.

Guðrún skorar á almenning að hefja undirskriftarsöfnun til að núverandi fyrirkomulagi verði breytt. „Ég hvet alla til að standa við bakið á mér og sjá til þess að allir vasapeningar hverfi og fólkið fái til baka allan sinn ellilífeyri.“

Guðrún hafði samband við mbl.is sl. fimmtudag þar sem hún boðaði til blaðamannafundar á heimili sínu til að greina frá bágri stöðu aldraðra. Þar upplýsti hún blaðamann um það að henni hefði borist bréf frá Tryggingastofnun (TR) fyrr í þessum mánuði þar sem stóð að hún ætti ekki rétt á lífeyri þar sem hún hefði dvalið á hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Vífilsstöðum í sex mánuði. Hún var með um 177.000 krónur á mánuði í lífeyristekjur en þess í stað átti hún að fá um 53.000 krónur í vasapeninga mánuði. Afgangurinn færi í vistgjald á hjúkrunarheimilinu. 

Blaðamaður hafði samband við Guðrúnu í dag sem sagði frá því að hún hefði fengið framlengingu á greiðslu lífeyris í þrjá mánuði, sem tæki gildi frá og með næstu mánaðamótum. „Þeir sóttu um fyrir mig á Vífilsstöðum um framlengingu,“ segir hún.

Betri staða um næstu mánaðamót

Guðrún segir að sl. föstudag, daginn eftir að mbl.is greindi frá málinu, hafi hún fyrir rælni skráð sig inn á vef TR og þar tók hún eftir því að þann 1. apríl nk. myndi hún fá greiddar 186.000 krónur inn á sinn reikning. „Mér brá - ég verð að segja alveg eins og er.“ Hún spyr hins vegar hvað muni taka við að þremur mánuðum liðnum. „Hvað skeður þá?“

Guðrún segir að starfsmaður Tryggingastofnunar hafi haft samband við sig í gær og upplýsti hann Guðrúnu um að það væri hægt að sækja um framlengingu í allt að hálft ár. Einnig að það gætti ákveðins misskilnings í umræðunni. Guðrún óskaði eftir því að starfsmaður TR myndi senda henni umsóknarbeiðni svo hún gæti sótt um frekari framlengingu.

Vasapeningar falla niður við útskrift af heimili

Í frétt sem birtist á vef TR í gær, segir að þegar um varanlega búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili sé að ræða falli lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að búseta hefst. Lífeyrisgreiðslur falli einnig niður hafi dvöl á stofnun verið lengri en 180 daga á síðustu 12 mánuðum, þar af samfellt síðustu 30 daga.

Tekið er fram, að ef sérstaklega standi á sé heimilt að framlengja greiðslur lífeyris um þrjá mánuði í senn, þó að hámarki um sex mánuði.

TR segir, að við það að greiðslur falli niður getur íbúi átt rétt á vasapeningum.

„Vasapeningar falla niður þegar einstaklingur öðlast aftur rétt til elli- eða örorkulífeyris við útskrift af heimili,“ tekur TR skýrt fram á heima síðu sinni. 

„Nú verðum við að heimta það að allir sem eru á þessum vasapeningum verði teknir af þeim og settir aftur á sama lífeyri og þeir voru með,“ segir Guðrún að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert