Pylsan hækkar en kókið ekki

Pylsa og kók kosta 600 krónur á Bæjarins bestu.
Pylsa og kók kosta 600 krónur á Bæjarins bestu. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurftum að hækka hjá okkur eftir breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Við sluppum hinsvegar við að hækka gosið því sykurskatturinn var felldur niður,“ segir Baldur Ingi Halldórsson, framkvæmdastjóri Bæjarins bestu.

Þjóðarréttur Íslendinga, pylsa með öllu, hækkaði um 20 krónur fyrir skömmu og kostar núna 400 krónur. Pylsa og kók kosta 600 krónur sem Baldur segir að sé frábært verð – sérstaklega fyrir starfsfólkið.

„Þetta er þægilegasta verð í langan tíma. Starfsfólkið mitt er ánægt og það er varla til skiptimynt,“ segir hann.

Baldur segir að Bæjarins bestu reyni að forðast hækkanir í lengstu lög en pylsan sé búin að hækka um 80 krónur frá 2007. Þrátt fyrir það blómstra viðskiptin og nánast stanslaus röð er við aðalpylsuvagninn við Tryggvagötu.

„Við getum ekki kvartað, það fjölgar alltaf ferðamönnum sem koma til okkar og Íslendingar eru enn sólgnir í eina með öllu,“ segir Baldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert