Snjókoma í lok vikunnar

mbl.is/Styrmir Kári

Spáð er hægu, mildu veðri um allt land í vikunni með hitastig rétt í kringum frostmark. Skýjað verður í upphafi vikunnar, að suðvesturhorninu undanskildu, en á fimmtudaginn er spáð snjókomu á landinu öllu.

Á suðvesturhorninu verður besta veðrið í upphafi vikunnar með heiðskíru eða léttskýjuðu og hitastigi rétt um frostmark. Á miðvikudaginn fara skýin svo að færast yfir svæðið og á fimmtudaginn er spáð snjókomu. Gæti þá líka farið að bæta í vind, allt að 9 m/s. Á föstudaginn er svo spáð rigningu og þriggja stiga hita.

Á morgun er spáð snjókomu á Austur- og Norðausturlandi. Gæti vindurinn farið upp í 12 m/s á stöku stað. Áfram verður skýjað á svæðinu fram á föstudag en það mun draga úr úrkomunni og hitastigið mjakast upp fyrir frostmark.

Á Vesturlandi verður kuldinn stöðugur rétt undir frostmarki í vikunni. Heiðskírt verður í upphafi vikunnar áður en fer að draga fyrir sólina og á fimmtudag er spáð snjókomu.

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert