Fótunum kippt undan námsmönnum erlendis

LÍS segir að reglurnar geti haft verulegar slæmar afleiðingar fyrir …
LÍS segir að reglurnar geti haft verulegar slæmar afleiðingar fyrir íslenska námsmenn erlendis og muni óhjákvæmilega fækka íslenskum námsmönnum á erlendri grundu. mbl.is/Árni Sæberg

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) fordæma þá skerðingu sem námsmenn erlendis verða fyrir nú þegar menntamálaráðherra hefur skrifað undir nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) fyrir námsárið 2015-2016.

Þetta kemur fram í ályktun sem LÍS hefur sent frá sér. 

Þar segir, að í ósvöruðu bréfi Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), sem sé eitt aðildarfélaga LÍS, til Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, þann 18. febrúar sl., hafi ráðherra verið hvattur til þess að skrifa ekki undir nýju reglurnar sem meirihluti stjórnar LÍN hafði áður samþykkt þann 13. febrúar sl.

„LÍS telur þá skerðingu á framfærsluláni LÍN til námsmanna erlendis, sem á sér stað annað árið í röð, kippa fótunum undan námsmönnum erlendis. Enn fremur þá hefur íslenskum námsmönnum erlendis fækkað milli ára og telur LÍS að nú sé enn meiri hætta á slíkri þróun með þessari skerðingu. Áður, eða fyrir námsárið 2014-2015, lækkaði framfærslulán lánasjóðsins til námsmanna flatt um 10% á fjölda námsmanna erlendis. Með nýjum úthlutunarreglum er verið að skerða framfærslulánin enn frekar. Einnig er fyrirhugað að skerða enn meira eða hátt í 20% að meðaltali á grunnframfærslu námsmenn erlendis með næstu úthlutunarreglum (2016-2017).

Á stjórnarfundi LÍN þann 13. febrúar s.l. var tillaga sett fram af SÍNE um hækkun skólagjaldalána um 15% en sú tillaga var felld af meirihluta. Meirihluti stjórnar LÍN felldi tillöguna þrátt fyrir þá vitneskju að meirihluti námsmanna erlendis ná ekki að greiða skólagjöldin sín með skólagjaldaláni frá LÍN einu og sér.

Landsþing LÍS er nýafstaðið og var þema þingsins alþjóðavæðing. Þar fór ekki framhjá neinum hversu mikilvægt það er fyrir Ísland að vera hluti af alþjóðasamfélagi og nýta þá þekkingu sem hefur skapast á öðrum stöðum en einungis fyrirfinnst á þessari eyju.

LÍS hvetur því LÍN og núverandi ríkisstjórn til að endurskoða úthlutunarreglurnar á þeim grundvelli að þetta geti haft verulegar slæmar afleiðingar fyrir íslenska námsmenn erlendis og mun óhjákvæmilega fækka íslenskum námsmönnum á erlendri grundu með tilheyrandi skaða fyrir íslenskt samfélag.“

SÍNE kvartar mögulega til umboðsmanns

Harma að ráðherra hafi skrifað undir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert