Horft einkum til öryggis á norðuslóðum

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Horft verður sérstaklega til öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði samkvæmt þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Gert er ráð fyrir að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) „verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja,“ og að „varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir.“

Ennfremur er lögð áhersla á að „efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði,“ og „tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“

Sömuleiðis verði tryggt að í landinu verði til staðar „varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands,“ og að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, verði hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Aukinheldur að „stuðla að auknu netöryggi með áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og í samstarfi við önnur ríki.“

Þá verði íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga. Að síðustu verði sett á laggirnar með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð „sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert