Vildi ekki Friðrik Dór og fórnuðu úlfalda

Samkvæmt knattspyrnureglunum má ekki spila í búningi sem ruglar andstæðinga …
Samkvæmt knattspyrnureglunum má ekki spila í búningi sem ruglar andstæðinga í ríminu. mbl.is/Eggert

Í dag, fyrsta dag aprílmánaðar, eru heldur meiri líkur á að lesendur fréttamiðla grípi til gagnrýnnar hugsunar og efist um margt sem kemur þar fram en aðra daga.

Lesendur eru staðráðnir í því að láta ekki gabba sig og ætla alls ekki „að hlaupa apríl.“ Þess má þó geta að siðurinn segir að fólk þurfi að hlaupa yfir einn eða fleiri þröskulda til að gabbið sé fullgilt.

Oftar en ekki hefur óvæntur gestur boðað komu sína á tiltekinn stað, boðið er upp á nýjan og skemmtilegan viðburð og þá greina fréttamiðlar stundum frá sjaldséðum dýrum hér og þar um landið. Ekki var breyting þar á og verður hér farið yfir nokkrar fréttir sem mbl.is telur líklegt að skrifaðar hafi verið með 1. apríl í huga.

Er búningurinn blár eða svartur?

mbl.is og Morgunblaðið greindu frá því að nýr búningur KR virðist breyta um lit eftir því hvernig birtan er hverju sinni. Búningurinn hefur verið svartur og hvítur frá stofnun félagsins árið 1899 en ef marka mátti fréttina sýndist sumum búningurinn vera blár og hvítur.

Frétt mbl.is: Svarta röndin virðist blá

Fjölmargir hafa tekið þátt í könnun sem boðið var upp á í fréttinni og virðast flestir vera á þeirri skoðun á búningurinn sé blár og hvítur. Að sögn húsvarðar í KR heimilinu hafa nokkrir komið í dag og viljað skoða nýja búninginn og voru fæstir þeirra sáttir með litavalið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem búningur KR-inga hefur verið efni í aprílgabb. Eitt sinn bárust fregnir af því að röndunum á búningnum hefði verið fækkað og þá var einnig greint frá því að rendurnar væru ekki lengur lóðréttar, heldur láréttar.

Fórnuðu úlfalda og buðu upp bíla

Ríkisútvarpið greindi frá því að í dag færi fram fyrsta uppboð Ríkiskaupa á þessu ári, á bifreiðum í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Bjóða átti upp 39 bifreiðar og átti hver sem er að geta boðið í bifreiðarnar. „Eina raunverulega krafan er að kaupandinn hafi bílpróf og geti lagt fram sæmilega tryggingu fyrir greiðslugetu,“ var haft eftir Páli Sigfússyni, formanni innkaupadeildar.

Fréttablaðið greindi frá því að borgarstjóri hefði tekið fyrstu skóflustunguna að mosku Félags múslima í Sogamýri við sólarupprás í gær. Við það tækifæri hafi úlfalda sem félagið fékk sérstaka undanþágu til að flytja til landsins verið fórnað. Í fréttinni sagði einnig að Fiskikóngurinn á Sogavegi hafi tekið að sér að verka kjötið og afhendi það þeim sem vilja án endurgjalds í dag.

Mótmælti ákvörðun StopWaitGo

Páll Óskar greindi frá því að StopWaitGo hópurinn hefði ákveðið að breyta framlagi Íslands í Eurovision. Sagði hann að ákveðið hefði verið að Friðrik Dór myndi taka sæti Maríu Ólafsdóttur og syngja lagið Unbroken en hún myndi syngja bakraddir. Hvatti hann vini sína á Facebook til að skrifa undir áskorun þess efnis að þessi breyting yrði dregin til baka.

Bæjarins besta hvatti karlmenn til að frelsa punginn í Sundhöll Ísafjarðar í kvöld og mæta berir að neðan. „Það ætti að sýna fram á fáranleika free the nipple,“ líkt og sagði í fréttinni.

Gáfu 1000 norsk páskaegg

Víkurfréttir greindu frá því að Nettó hefði hefði pantað páskaegg frá sælgætisverksmiðju í Noregi fyrr á árinu. Þegar eggin skiluðu sér í hús kom aí ljós að 1000 egg í sendingunni höfðu skandinavíska merkingu og innihéldu norska málshætti. Í fréttinni sagði að ákveðið hefði verið að eggin færu ekki í sölu en þau yrðu gefin í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík.

DV greindi frá því að Beyoncé Knowles hefði ákveðið að syngja í beinni útsendingu á Radio Iceland rétt eftir hádegi í dag. Hún hefði ákveðið að koma til landsins til að sjá Holuhraun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert