Krafan um lýðræðisumbætur vegur þungt

Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður þingflokks Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður þingflokks Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ánægjulegt að sjá fylgið haldast svona enda var þetta ansi hröð uppsveifla,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður þingflokks Pírata, í samtali við mbl.is og vísar til niðurstöðu nýjasta þjóðarpúls Gallups um fylgi stjórnmálaflokka.

Þar mælast Píratar nú með 22% fylgi og eru því stærstir á eftir Sjálfstæðisflokknum sem er með 25% fylgi. Aðrir flokkar eru með tæp 16% eða minna.

Helgi Hrafn segir fylgisaukningu flokksins að líkindum snúast einna helst um áherslur hans. Vísar hann þar einkum til aukinnar kröfu almennings hvað lýðræðisumbætur varðar. „Mér finnst eitthvað hafa gerst í samfélaginu sem gerir það að verkum að fólk er búið að fá nóg af því hvernig farið er með lýðræði á Íslandi,“ segir Helgi Hrafn.

Aðspurður segir hann helst tvennt koma til greina sem útskýrt getur fylgisaukninguna. Fyrra atriðið segir Helgi Hrafn vera áðurnefnt ákall um lýðræðisumbætur en hið seinna aukið fylgi vegna óánægju með aðra stjórnmálaflokka. 

„En óánægjufylgið er í eðli sínu ákall á lýðræðisumbætur. [...] Alþingi nýtur nú trausts 18% landsmanna og fyrir mér er það ekkert annað en krísa. Og við verðum að gera eitthvað í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert