Nauðsynlegt að hafa verslun í Hrísey

Eins og stendur er engin verslun í Hrísey. Júlí­us Freyr Theó­dórs­son sem hefur síðastliðin ár rekið verslunina Júllabúð er hættur rekstri en búðinni var lokað 10. mars.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir það mjög slæmt því verslunin hafi verið gífurlega mikilvæg fyrir íbúa eyjarinnar. „Þessi búð veitti íbúum nauðsynlegustu vörur. Auðvitað sóttu íbúar Hríseyjar mikið inn á Akureyri í stórverslanirnar en Júllabúð var alveg nauðsynleg þrátt fyrir að Hrísey sé lítið samfélag,“ segir Eiríkur sem telur að búðin sé einnig mikilvæg fyrir ferðaþjónustu í eyjunni.

Að sögn Eiríks eru málefni Hríseyjar og verslunar nú í skoðun í bæjarstjórn Akureyrar með hverfisráði Hríseyjar. „Þetta mál er tiltölulega nýtilkomið en auðvitað eru allir áhyggjufullir um að þetta ástand standi yfir til lengri tíma.“

Fregnir af lokun Júllabúðar birtust á vef Vikudags fyrr í vikunni. Kom þar fram að Júlíus hafi þurft að loka vegna erfiðs reksturs. Júlíus starfrækir einnig veit­inga­húsið Brekku í Hrís­ey, en þeim rekstri hyggst hann hætta í vor. Að sögn Viku­dags er óvíst hver tek­ur við rekstri Júlla­búðar og Brekku.

„Ingimar Ragn­ars­son, formaður hverf­is­nefnd­ar­inn­ar í Hrís­ey, seg­ir slæmt að eng­in versl­un sé í eyj­unni og það sé óvíst hvenær hún verði opnuð á ný,“ seg­ir á vefsíðu Vikudags.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert