Skólakerfið vinnur ekki með atvinnulífinu

Halldór Grönvold segir skort á atvinnustefnu kristallast í umframframboð á …
Halldór Grönvold segir skort á atvinnustefnu kristallast í umframframboð á ákveðnum sviðum atvinnulífsins meðan skortur sé á starfsfólki í öðrum greinum. Styrmir Kári

Meðan flestar þjóðir framkvæma greiningarvinnu á færni og menntun 5-15 ár fram í tímann gerir Ísland ekkert slíkt. Þetta er ein af ástæðum þess að skólar ýta undir nám þar sem er umframframboð á vinnumarkaði meðan skortur er á starfsmönnum í aðrar stéttir. Þetta segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Á fundi Vinnumálastofnunar í dag var skýrsla um vinnumarkaðinn kynnt, en þar kom meðal annars fram að hlutfallslega fleiri munu útskrifast úr háskólanámi en vinnumarkaðurinn þarfnast.

Framboð menntunar í tengslum við eftirspurn

Halldór segir að Ísland þurfi að gera mun betur í þessari greiningarvinnu og segir aðrar þjóðir móta menntastefnu sína á þeim upplýsingum. „Þær ákveða hvar framboðið á menntun er umfram annað til að mæta þessum væntanlegu þörfum og einnig upplýsa þær ungmenni um hvar er líklegast að þau fái störf við hæfi eftir nám,“ segir Halldór og bætir við að það sé óskiljanlegt að engin vinna sé í þessa átt hér á landi.

Hópar af háskólamenntuðum sem ekki er þörf á

Þetta fyrirkomulag leiðir til misgengis að hans sögn. „Við erum með hópa af fólki með háskólamenntun sem ekki er þörf fyrir á vinnumarkaði, en svo eru vaxtagreinar í atvinnulífinu sem fá ekki það fólk sem þær þurfa á að halda.“ Hann segir að ekki sé verið að bjóða upp á réttu menntunina þegar horft er á heildarmyndina. „Það er offramboð fyrir sumar greinar en ekki fyrir aðrar. Skólakerfið er ekki að vinna með atvinnulífinu.“

Sökin bæði skólakerfisins og atvinnulífsins

Hann segir þetta engum einum aðila eða stofnun að kenna, en að hér vanti grundvallar þekkingu til að móta stefnu í atvinnumálum eins og nágrannalönd okkar geri. Þannig leiðist skólar til að gera það sem þeir þekki best sem í flestum tilfellum sé hefðbundið bóknám, jafnvel þótt atvinnulífið kalli eftir annarri menntun. Þá segir hann atvinnulífið ekki nægjanlega duglegt að segja til um hvað það sé sem það vilji og fylgja því eftir.

Málið er í raun pólitískt að sögn Halldórs og segir hann að eftir að greiningarvinna hafi átt sér stað þurfi að gíra framboð á menntun og hvata í kerfinu þannig að útkoman verði sem best.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert