Fóðra ekki verðbólgusamninga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sjást þarf til lands í kjaraviðræðum áður en stjórnvöld geta ákveðið til hvaða aðgerða þau geta gripið til að greiða fyrir samningum svo að þær nýtist sem best. Ríkisstjórnin hefur þegar hitt aðila vinnumarkaðarins til að ræða í hvað stefnir og mögulegar aðgerðir stjórnvalda. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð lýstu bæði þungum áhyggjum af stöðunni á vinnumarkaði og vildu vita hvað ríkisstjórnin hygðist gera til að greiða fyrir samningum.

Forsætisráðherra sagðist deila áhyggjunum af stöðunni. Skapast þyrfti traust á milli aðila, meðal annars um að ávinningi sem skapast hafi á undanförnum misseri yrði skipt á sanngjarnan hátt. Þess vegna sagði hann óæskilegt og afleitt að farið væri í tugprósenta hækkanir á stjórnarlaunum hjá fyrirtækjum á sama tíma.

Ríkisstjórnin væri tilbúin að leggja ýmislegt á sig til að greiða fyrir kjarasamningum. Hún væri hins vegar ekki tilbúin til að kasta aðgerðum á verðbólgubál.

„Við viljum ekki fóðra verðbólgusamninga. Ef menn hins vegar sjá fram á að það náist það sem mætti kalla stöðugleikasamningar þá er ríkisvaldið opið fyrir ýmsum leiðum sem að sjálfsögðu yrðu unnar í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Við myndum ekki verða fyrri til að segja að það verður þetta og ekkert annað heldur miklu frekar ráðfæra okkur við aðila vinnumarkaðarins. Sú vinna er raunar þegar hafin. Menn eru byrjaði að hittast og skiptast á skoðunum,“ sagði Sigmundur Davíð. 

Katrín spurði þá hvort að ríkisstjórnin ætlaði að bíða eftir því að verkföll skyllu á áður en hún gripi til aðgerða. Forsætisráðherra sagði að áður þyrfti að sjást til lands í viðræðunum aðila vinnumarkaðarins áður en hægt yrði að meta hvaða aðgerðir nýttust best og hvort að aðgerðir gætu hreinlega reynst skaðlegar ef stefni í það sem mætti kalla verðbólgusamninga.

„Þess vegna þurfa menn að hafa einhverja hugmynd um að það náist samkomulag og hvert stefnir svo að aðgerðir stjórnvalda geti nýst sem best til þess að bæta enn á ráðstöfunartekjur og auka kaupmátt landsmanna,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert