Ragnheiður fundaði með Segolene Royal

Ragnheiður Elín Árnadóttir á fundinum í París.
Ragnheiður Elín Árnadóttir á fundinum í París.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði ráðstefnu Fransk-íslenska viðskiptaráðsins um nýtingu jarðhita og möguleika á samstarfi Íslands og Frakklands sem haldin var í París í gær. Einnig fluttu ávörp forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Laurent Fabius utanríkisráðherra Frakklands. Ráðherrarnir og forsetinn funduðu einnig sérstaklega um það hvernig ríkin tvö geti best starfað saman í aðdraganda COP21 ráðstefnunnar um loftslagsmál sem haldin verður í París í desember, en þar er markmiðið að ræða og efla tæknilausnir sem nauðsynlegar eru til að minnka losun koltvísýrings svo að fyrirsjáanleg hækkun hitastigs verði innan við 2C. 

Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í morgun áttu forsetinn og iðnaðar- og viðskiptaráðherra fund með Segolene Royal ráðherra umhverfis- og orkumála og sjálfbærrar þróunar. Á fundinum var samstarf ríkjanna á sviði hagnýtingu jarðhita rætt en ljóst er að þar eru mikil tækifæri, ekki síst í ljósi þess að frönsk stjórnvöld stefna að því að umbreyta orkukerfin sínu á næstu árum og draga stórlega úr notkun kjarnorku og jarðefnaeldsneytis, segir í frétt ráðuneytisins.

Víða í Frakklandi er að finna jarðhita sem nýttur er til húshitunar, t.d. í París, en jarðhitinn er einnig nýttur til iðnaðar, s.s. fiskeldis og ræktunar í gróðurhúsum. Ragnheiður Elín ítrekaði boð íslenskra stjórnvalda til ráðherrans um að sækja Ísland heim til þess að kynna sér jarðhitamálin frekar. 

Í næstu viku mun Ragnheiður Elín sitja alheimsráðstefnu um nýtingu jarðhita sem haldin er í Melbourne í Ástralíu en um 100 Íslendingar sem starfa á þessu sviði munu sækja ráðstefnuna. Ráðstefnan er haldin á fimm ára fresti og verður ráðstefnan 2020 haldin á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert