Deildu um tilvitnun í landlækni

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Töluverðar umræður sköpuðust um þingsköp á Alþingi í dag eftir að formaður velferðarnefndar vitnaði til orða landlæknis á fundi hennar í morgun í ræðu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði athugasemd við það þar sem það bryti gegn þingsköpum og trúnaði við gesti þingnefnda.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, vísaði til orða landlæknis um að verkfall nokkurra heilbrigðisstétta nú væri erfiðara fyrir heilbrigðiskerfið en læknaverkfallið þegar hún lagði fram spurningu til heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Eftir að ráðherrann hafði svarað fyrirspurn hennar kom Ragnheiður í pontu og gerði athugasemd við það að Sigríður Ingibjörg hefði vitnað til orða landlæknis af fundi velferðarnefndar. Þetta væri skýrt brot á þingskapalögum um að óheimilt sé að vitna til orða gesta á nefndarfundum.

Sjálf taldi Sigríður Ingibjörg þetta óeðlilega athugasemd og hafnaði því að hún hefði brotið trúnað við landlækni. Hún hefði aðeins verið að vísa til ástands sem þegar væri þekkt. Nokkrir þingmenn tóku hins vegar til máls í kjölfarið og ræddu það hvort eðlilegt hafi verið að vitna til orða gests á nefndarfundi.

Fornfálegt að hafa nefndarfundi lokaða

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði að þingskapalög væru ekki skýr hvað þetta varðaði og hefð væri fyrir því að vitnað væri til þess sem kæmi fram á nefndarfundum. Kallaði hann eftir því að þetta yrði skýrt í þingsköpum og að þingskapanefnd sinnti störfum sínum hvað þetta varðaði.

Samflokksmenn hans, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, lögðu áherslu á að nefndarfundir Alþingis væru opnir og sagði Birgitta meðal annars að óeðlilegt væri ef ekki væri vísað til orða landlæknis í máli sem þessu. Það væru fornfáleg vinnubrögð að nefndarfundir væru lokaðir.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði þingsköp nokkuð afdráttarlaus um að bannað væri að vitna til orða gesta á nefndarfundum Alþingis. Engu að síður væri vitað af reynslunni að oft væri vitnað til skoðana einstakra gesta opinberlega, bæði í þingræðum og nefndarálitum. Þingmenn virtust kalla eftir að inntak þingskapa verði skýrt og sjálfsagt væri að fara yfir það.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka