Greiðfært á öllum aðalleiðum

Snæfellsnes.
Snæfellsnes. Morgunblaðið/Skapti

Greiðfært er á öllum aðalleiðum landsins en þó eru hálkublettir í Árneshreppi. Þoka er á Vatnaleið og Fróðárheiði og mikið hvassviðri á norðanverðu Snæfellsnesi.

Vegir sem ekki eru í vetrarþjónustu eru sumir hverjir orðnir færir. Búið er að opna veginn yfir Öxi en þar eru hálkublettir. Vegir sem enn eru lokaðir eða ófærir eru t.d. Nesjavallaleið og eins bæði Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir enn fremur:

Vegna vinnu við brúargólf á brúnni yfir Sogið við Þrastalund er önnur akreinin lokuð en umferð er stýrt með ljósum. Reiknað er með að vinnan standi yfir til 20. júní. - Athugið að á þriðjudaginn kemur, þann 21. apríl, þarf að loka brúnni alveg frá klukkan fimm að morgni til hádegis vegna steypuvinnu.

Vegna vinnu í Múlagöngum aðfaranætur mánudagsins 20.apríl til miðvikudagsins 22. apríl
má reikna með umferðarföfum þar frá klukkan 21:00 til 06:00 að morgni.

Þær sérstöku þungatakmarkanir sem settar voru á vegna hættu á slitlagaskemmdum er hér með aflétt frá kl.10:00 mánudaginn 20. apríl á eftirtöldum vegum: Suðurfjarðavegur 96 frá Vattarnesvegi í botni Fáskrúðsfjarðar að Hringvegi við Breiðdalsvík. Hringvegur 1 frá Suðurfjarðavegi við Breiðdalsvík suður um að Hafnarvegi.

Þungatakmarkanir eru nú víða um land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert