Íslendingar sýndu mestar framfarir

Hlaup njóta sífellt meiri vinsælda meðal Íslendinga.
Hlaup njóta sífellt meiri vinsælda meðal Íslendinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskar konur og karlar voru þau hröðustu að meðaltali í 72 maraþonhlaupum í tólf borgum á tímabilinu 2009 til 2014, sýndu mestar framfarir og þá hlupu íslenskir maraþonhlauparar að meðaltali hraðast á síðasta ári.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á maraþonhlaupum. Litið er til maraþonhlaupa á tímabilinu 2009 til 2014 í Chicago, Marine, Boston, London, París, Berlín, Frankfurt, Aþenu, Amsterdam, Búdapest, Varsjá og Madríd.

Um er að ræða 72 hlaup og 2.195.588 niðurstöður. Markmið könnunarinnar var að kanna hvernig áhugahlauparar standa sig og því voru niðurstöður afrekshlaupara ekki teknar með.

Þrátt fyrir að Íslendingar hafi að meðaltali átt besta tímann í heiminum í maraþoni í fyrra og íslensku konurnar og karlarnir hafi hlaupið hraðar en hinar þjóðirnar hafa íslenskir hlauparar ekki ratað á verðlaunapalla í maraþonhlaupunum. Í könnuninni er litið til meðaltals og því gefur hún þessar niðurstöður. 

Áhuginn jókst mest hjá Rússum

Þátttaka í maraþonum jókst um 13,25% á heimsvísu á tímabilinu 2009 til 2014. Svo virðist sem áhugi kvenna hafi aukist mun meira en karla, eða um 26,9% miðað við 7,8% hjá karlmönnum. Þátttökuhlutfall meðal íslenskra maraþonhlaupara jókst um 72,37% á tímabilinu og er landið í ellefta sæti af 47 þjóðum.

Áhugi á maraþonhlaupum jókst verulega í Asíu á tímabilinu eða um 92,34%, bæði meðal karlmanna 90,4% og kvenna 97,8%. Í Kína jókst hlutfall þátttakenda um 259,47% og um 154,78% í Indlandi. Þátttaka dróst aðeins saman í einu landi álfunnar, eða í Suður-Kóreu. Svo virðist sem íþróttin hafi náð sérstaklega til Rússa síðustu ár en þar jókst þátttökuhlutfall um heil 300%.

45,15% maraþonhlaupara í Bandaríkjunum á tímabilinu 2009 til 2014 voru konur og er hlutfall kvenna hvergi hærra í heiminum. Ísland er í fjórða sæti með 35,92% kvenna. Spánn er aftur á móti neðst af 47 þjóðum en þar var voru konur 6,41% þátttakanda í maraþonhlaupum á tímabilinu.

Meðaltíminn á síðasta ári 4:21:21

Meðaltími í maraþonhlaupi í heiminum á síðasta ári var fjórar klukkustundir, 21 mínúta og 21 sekúnda. Ef litið er til tímabilsins 2009 til 2014 var meðaltíminn fjórar klukkustundir, 22 mínútur og 5 sekúndur.

Karlmenn voru að meðaltali 4 klukkustundir, 13 mínútur og 23 sekúndur á tímabilinu og konur 4 klukkustundir, 42 mínútur og 33 sekúndur.

Spánverjar eiga að meðaltali besta tímann á tímabilinu 2009 til 2014, eða 3 klukkustundir, 55 mínútur og 35 sekúndur. Þeir eiga besta tímann að meðaltali 2011, 2012 og 2013 en í fyrra átti Ísland aftur á móti besta tímann að meðaltali. 

Íslendingar sýndu mestar framfarir

Einnig var litið til framfara í hlaupum síðustu fimm ára og hefur Ísland sýnt mestar framfarir á tímabilinu. Singapúr kemur þar á efstir og þá Danmörk. Íslenskir maraþonhlauparar bættu sig um 23 mínútur og 47 sekúndur á tímabilinu. Kínverjar sýndu aftur á móti minnstar framfarir.

Íslenskir karlmenn hlaupa hraðast í heiminum í maraþonhlaupum að meðaltali en indverskir karlmenn  hægast, eða að meðaltali á einni klukkustund, átta mínútum og 23 sekúndum lengri tíma en íslenskir karlmenn.

Hið sama gildir um konurnar, íslenskar konur hlaupa hraðast að meðaltali og indverskar konur hægast. Indversku konurnar hlaupa að meðaltali einni klukkustund, átta mínútum og 35 sekúndum hægar en íslenskar konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert