Vilja að Týr haldi áfram störfum í Miðjarðarhafi

Varðskipið Týr í Pozzallo á Sikiley með 320 flóttamenn. Myndin …
Varðskipið Týr í Pozzallo á Sikiley með 320 flóttamenn. Myndin er nokkurra vikna gömul. Landhelgisgæslan

Svandís Svavarsdóttir greinir frá því á Facebook-síðu sinni í dag að þingflokkur Vinstri grænna muni leggja fram tillögu um að stjórnvöld samþykki aukafjárveitingu til Landhelgisgæslunnar svo varðskipið Týr geti haldið áfram störfum í Miðjarðarhafinu út sumarið.

Mikil þörf er á björgunarmannskap í Miðjarðarhafinu eins og atvik laugardagsins sýndu glögglega. Þá hvolfdi skipi með um 700 flóttamenn innanborðs. Aðeins tókst að bjarga örfáum farþeganna. 

Ríkisstjórn Noregs ákvað í dag að senda skip og mannafla til að aðstoða í Miðjarðarhafinu. Eftir á að taka ákvörðum um hvers konar skip verður sent en stefnan er að það verði komið til starfa á vettvangi í ágúst á þessu ári.

Ítölsk yfirvöld hafa lengi óskað eftir aðstoð Evrópuríkja og Evrópusambandsins við aðgerðir í hafinu suður af landinu. Flest flóttamannaskipin frá Norður-Afríku setja stefnuna á Ítalíu og þar hafa flest stórslysin orðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert