Lokað til hádegis við Þrastarlund

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Eins og spáð var hefur éljað um vestanvert landið og þar er víða nokkur hálka, krapi eða snjóþekja. Hálka er til að mynda á Hellisheiði og Lyngdalsheiði, og hálkublettir eru á köflum í uppsveitum á Suðurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir einnig:

Hálka er á fjallvegum á Vesturlandi og sumstaðar eru einnig hálkublettir á láglendi.

Vetrarfærð er á Vestfjörðum, hálkublettir, hálka, krapi eða snjóþekja víðast hvar, einkum á fjallvegum og þar er sumstaðar skafrenningur.

Á Norðurlandi vestra er krapi eða nokkur hálka á köflum og raunar er líka hálka á Öxnadalsheiði en þar fyrir austan er greiðfært.

Brú við Þrastalund lokuð til hádegis

Vinna stendur yfir við brúargólf á brúnni yfir Sogið við Þrastalund. Í dag, þriðjudaginn 21. apríl, er brúin lokuð frá klukkan fimm að morgni til hádegis, vegna steypuvinnu.

Eftir það verður aðeins önnur akreinin lokuð og umferð stýrt með ljósum. Reiknað er með að vinna við brúna standi yfir til 20. júní.

Múlagöng

Vegna vinnu í Múlagöngum yfir nóttina má reikna með umferðartöfum þar frá klukkan 21:00 til 06:00 að morgni fram á miðvikudag 22. apríl.

Þungatakmarkanir

Þungatakmarkanir eru víða um land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert