Forstjórinn fylgdist oft með

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, lengst til vinstri.
Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, lengst til vinstri. mbl.is/Árni Sæberg

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, fylgdist náið með öllum viðskiptum eigin viðskipta bankans í Kaupþingi sjálfu og hringdi reglulega í almenna starfsmenn deildarinnar varðandi að setja inn kauptilboð. Þetta er meðal þess sem hefur komið fram í símtölum og tölvupóstum sem sýndir voru í dómsal í dag.

Á fjórða degi réttarhalda í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings er Birnir Sær Björnsson, miðlari í deildinni, áfram spurður sem vitni í málinu, en áætlað er í heild muni hann svara spurningum í tvo og hálfan dag.

Ætla að „laga þetta“

Saksóknari hefur í dag farið yfir fjölda tölvupósta og símtala Birnis við yfirmenn sína og aðra starfsmenn í Kaupþingi. Mikið til eru símtölin og póstarnir samskipti við Ingólf og meðal annars hringir Ingólfur í hann einn morguninn og segir að það sé tómlegt á markaðinum. Birnir játar því og segist vera að fara að setja tilboð inn og Ingólfur ýtir undir það. Aðspurður um hvort Ingólfur hafi oft fylgst svona vel með segir Birnir að svo hafi verið.

Í öðru símtali ræðir Ingólfur við Birni um lækkun sem var á markaði í Svíþjóð strax um morguninn. Þeir ræða gengi bréfanna sem er 68,75, en Ingólfur ýtir á að hafa tilboð 69,50. Segist Birnir ætla að „laga þetta.“

Reynir að tengja fyrirmælin við framkvæmdir í Kauphöllinni

Reglulega sendi Birnir pósta með stöðu dagsins á Ingólf og Einar Pálma Sigmundsson, yfirmann eigin viðskipta. Var þar oftast horft til hreyfinga á bréfum Kaupþings og eign eigin viðskipta í hlutabréfum bankans. Aðspurður hvort að hann hafi fengið fyrirmæli um slíkar sendingar sagði Birnir svo vera. Spyr saksóknari hann reglulega út í fyrirmæli Ingólfs og virðist vera að tengja ákvarðanir hans við það sem Birnir svo framkvæmir í Kauphöllinni.

Saksóknari spyr ítrekað Birni hvort hann hafi verið ósáttur með fyrirmæli yfirmanna, en slíkt hafði komið fram áður í réttarhöldunum. Birnir svarar því til að öll viðskipti hafi verið gerð með það að markmiði að hagnast, þó skammtímasveiflur geti verið miklar og stutt á milli hagnaðs og taps.

Birnir Sær Björnsson í héraðsdómi í dag.
Birnir Sær Björnsson í héraðsdómi í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert