Takmörkuð tenging við Hreiðar og Sigurð

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson.
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson. Mynd/mbl.is

Tenging þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar, fv. forstjóra og stjórnarformanns Kaupþings, hefur verið heldur takmörkuð enn sem komið er í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þeir virðast þó hafa fylgst náið með öllu sem var að gerast og óskaði Hreiðar meðal annars beint eftir stöðuyfirliti frá almennum starfsmanni í eigin viðskiptum bankans.

Bara tvö vitni á fjórum dögum

Enn sem komið er hafa bara tvö vitni verið leidd fyrir dóminn, en það eru þeir Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, starfsmenn eigin viðskipta bankans. Samkvæmt gögnum sem sýnd voru í dag virðist Birnir hafa sent æðstu stjórnendum bankans, þeim Hreiðari, Sigurði, Ingólfi Helgasyni, forstjóra Kaupþings á Íslandi og Steingrími Kárasyni, framkvæmdastjóra áhættustýringar, reglulegt stöðuyfirlit yfir eign eigin viðskipta í Kaupþingi, breytingar innan dags og hver kaup dagsins voru.

„Hvernig eru markaðir“

Nokkrum sinnum sendi svo Hreiðar Már beiðni á Birni um nánari upplýsingar í póstum sem báru yfirskriftina „Hvernig eru markaðir.“ Aðspurður af hverju Hreiðar hafi farið beint til hans með þessi mál sagði Birnir að hann vissi það ekki. Þá sagði hann að ef hann hefði ekki sjálfur verið við hefðu fyrrnefnd stöðuyfirlit væntanlega verið send af öðrum starfsmönnum deildarinnar samkvæmt beiðnum frá stjórnendum.

Engin fyrirmæli frá Hreiðari eða Sigurði

Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar saksóknara um hvort beiðnir eða tilmæli hafi komið frá Hreiðari Má eða Sigurði virðist svo ekki hafa verið, allavega ekki beint til almennra starfsmanna. Sagði Birnir t.a.m. þegar verjendur Hreiðars og Sigurðar spurðu hvort hann hefði fengið fyrirmæli frá þeim að svo væri ekki.

Eftir helgi verður svo yfirheyrslum haldið áfram, en þá mun Einar Pálmi Sigmundsson, fv. forstöðumaður eigin viðskipta, bera vitni. Þar á eftir Ingólfur, en þá mun væntanlega nánar skýrast að undirlagi hvers ákvarðanir varðandi mikil kaup sviðsins voru.

„Eftir vilja þeirra“

Í símtali sem Birnir átti árið 2010 og var hlerað af lögreglu og spilað í dómsal í dag sagði Birnir meðal annars að ákveðin stöðutaka hefði verið framkvæmd af deildinni, en „eftir vilja þeirra.“ Þar er átt við yfirmenn bankans, en enn á eftir að koma í ljós hvort um sé að ræða Ingólf, Hreiðar, Sigurð, eða einhvern annan.

Það skal þó tekið fram að þótt saksóknari ákæri fyrir þau miklu viðskipti sem eigin viðskipti áttu með bréf í Kaupþingi, þá hafa vitnin hingað til sagt öll þau viðskipti eðlileg og að allir markaðsaðilar hafi vitað af hlutverki deildarinnar til að auka seljanleika. Því hafi ekkert óeðlilegt eða ólöglegt átt sér stað í þeim málum.

Sá hluti málsins sem hingað til hefur verið skoðaður er einnig bara kauphlið málsins, en á seinni stigum verður söluhliðin tekin og samkvæmt ákæru eru yfirstjórnendur bankans þar höfuðleikendur.

Birnir Sær svaraði spurningum í dag.
Birnir Sær svaraði spurningum í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert