104 heimilisofbeldismál á 59 dögum

Samkvæmt samantekt frá lögreglunni var í 79 tilvikum af 104 …
Samkvæmt samantekt frá lögreglunni var í 79 tilvikum af 104 um að ræða ofbeldi á milli maka eða fyrrverandi maka. mbl.isKristinn Ingvarsson

Alls komu 104 heimilisofbeldismál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tveggja mánaða tímabili, frá 12. janúar til 11. mars. Í flestum tilvikum var um líkamsmeiðingar að ræða og voru börn til húsa á meirihluta heimilanna. Það þýðir að nánast hvern dag var tilkynnt um heimilisofbeldi á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu á þessu 59 daga tímabili. 

Í 70 málum lágu fyrir upplýsingar um fyrri sögu heimilisofbeldis. Í 24 málum var slík saga ekki til staðar en í tíu málum vantaði upplýsingar.

Þann 12. janúar hófst átak gegn heimilisofbeldi hjá lögreglunni og Reykjavíkurborg, svipað því sem hefur verið í gangi hjá lögreglunni á Suðurnesjum um árabil.

iÍ tólf tilvikum er um ofbeldi af hálfu barna í garð foreldris og sex af hendi foreldris í garðs barns. Í sjö málum var um önnur tengsl að ræða.

Alls eru fórnarlömbin 112 talsins, þar af 86 konur og 26 karlar. Flest fórnarlömbin eru á fertugsaldri og á aldrinum 18-29 ára. Flest fórnarlambanna  eru Íslendingar eða 77 talsins og hið sama gildir um sakborninga. Þeir eru í 73 tilvikum íslenskir. Næst fjölmennasti hópurinn eru Pólverjar, 10 sakborningar og 9 þolendur. 

Flest málin voru á hendi lögreglustöðvarinnar sem annast Kópavog og Breiðholt eða 28% málanna. Fæst málanna voru á borði lögreglustöðvarinnar á Grensásvegi sem annast svæðið á milli Snorrabrautar austur að Elliðaám, 16%.

Börn voru skráð til heimilis á þeim stað sem tilkynnt var um ofbeldið í 67 tilvika en alls eru börnin 118 talsins. Í sumum tilvikum voru börnin ekki heima þegar farið var í útkallið. Í 55 málum fór annað hvort starfsmaður barnaverndar eða félagsþjónustu eða frá báðum stofnunum á staðinn með lögreglu.

Flest málin voru tilkynnt á mánudögum (21), laugardögum (20) og sunnudögum (17). Algengast var að lögreglan væri kölluð á vettvang á kvöldin (18:00-23:59) en 38  mál (37%) áttu sér stað á þeim tíma sólarhrings og svo á nóttunni (00:00-05:59) 27 mál (26%).

Í tæplega helming mála var það sá sem varð fyrir ofbeldinu sem hafði samband við lögreglu en í 3% tilvika var það sá sem beitti ofbeldinu sem lét vita. Í 16% tilvika voru það aðrir í fjölskyldunni sem létu vita en í 19% tilvika voru það nágrannar.

50 sakborningar og 22 brotaþolar voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. 22 sakborningar og 43 brotaþolar voru það ekki en það vantar upplýsingar um ástand annarra brotaþola og sakborninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert