Lykilstofnanir teknar í gíslingu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Er það sjálfsagt og eðlilegt að lykilstofnanir í samfélaginu séu teknar í gíslingu í verkfallsaðgerðum eins og við stóðum frammi fyrir í læknaverkfallinu og eins og við stöndum frammi fyrir núna? Hátt í 100 manns fá ekki á krabbameinsmeðferð í dag sem þurfa á henni að halda, 100 manns.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í umræðum um kjaraviðræður. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sakaði ráðherrann um að hafa ítrekað talað niður verkfallsréttinn að undanförnu. „Samhliða hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins talað um að það kunni að þurfa að takmarka verkfallsrétt með einum eða öðrum hætti og að vel sé hugsanlegt að setja lög á verkföll.“ Þá sakaði hann ríkisstjórnina um að hafa komið samskiptum á vinnumarkaði í uppnám.

Bjarni sagðist aldrei hafa hótað því að verkfallsrétturinn yrði tekinn af nokkrum sé gert athugasemd við það að stéttarfélög ynnu að hagsmunum félagsmanna sinna. Það væri samt ekki sama hvernig verkfallsréttinum væri beitt.

„Hversu lengi eigum við að sætta okkur við það eða verðum við bara að ganga að kröfum þeirra sem við sitjum á móti við samningaborðið vegna þess að það er eðlileg framkvæmd á verkfallsréttinum? Við verðum að geta tekið þá umræðu, ekki satt? Ég er ekki að gera annað en það, algjörlega án allra hótana, ég er bara að reyna að vinna í þágu samfélagsins í heild til þess að við náum niðurstöðu í þessari lotu kjaraviðræðna á sama tíma og við reynum að komast hjá því að setja allt í uppnám.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert