Andlát: Hallgrímur Sigurðsson

Hallgrímur Sigurðsson.
Hallgrímur Sigurðsson.

Hallgrímur Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Samvinnutrygginga g.t., lést á Landspítalanum í Fossvogi 22. apríl sl. á 91. aldursári.

Hallgrímur fæddist í Reykjavík hinn 26. júní 1924. Hann lauk stúdentprófi frá MR 1945 og embættisprófi í lögfræði árið 1952. Rúm tuttugu fyrstu starfsár sín vann Hallgrímur hjá Olíufélaginu hf., lengst af sem skrifstofustjóri. Hann var framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs í tæpt ár, 1973-1974, en tók þá við starfi forstjóra Samvinnutrygginga g.t. vorið 1974 og gegndi því starfi til ársloka 1989, þegar Vátryggingafélag Íslands hf. varð til við samstarf Samvinnutrygginga g.t. og Brunabótafélags Íslands g.t., en þá fór Hallgrímur á eftirlaun. Auk þess var hann framkvæmdastjóri Líftryggingafélagsins Andvöku frá árinu 1983 til ársloka 1989.

Hallgrímur gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum meðan hann var í námi og síðar við störf. Hann var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands 1949-1950, stjórnarmaður í Eimskipafélagi Íslands hf. 1972-1979, formaður stjórnar Samvinnuferða-Landsýnar 1977-1985 og áður í stjórn Samvinnuferða hf. og Landsýnar hf., formaður stjórnar Vinnumálasambands samvinnufélaganna 1978-1985 og í stjórn Vátryggingafélag Íslands hf. 1990-1992, svo eitthvað sé nefnt.

Foreldrar hans voru hjónin Guðlaug Hjörleifsdóttir húsfreyja, frá Undirfelli í Vatnsdal, og Sigurður Kristinsson, forstjóri SÍS og ráðherra, frá Öxnafellskoti í Eyjafirði.

Eftirlifandi eiginkona Hallgríms er Ingigerður Kristín Gísladóttir. Uppkomin börn þeirra hjóna eru þrjú: Sigurður arkitekt, Kristinn hæstaréttarlögmaður og Hulda, textílhönnuður og kennari. Barnabörn og barnabarnabörn eru 15 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert