„Nett trikk“ til að sýna minni eign

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi. Í símtalinu talar …
Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi. Í símtalinu talar hann um „nett trikk“ með að færa bréf milli markaða.

Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi talaði um að framkvæma „nett trikk“ þegar hlutabréfaeign bankans í sjálfum sér væri flutt á markaðinn í Svíþjóð og að með því myndi minni eign sjást í hluthafaskránni. Þetta kom fram í símtali sem var spilað milli Ingólfs og Einars Pálma Sigmundssonar, fv. forstöðumanns eigin viðskipta bankans, í dómsal í dag.

Komast þeir að þeirri niðurstöðu að færa 10 milljónir bréfa yfir til Svíþjóðar, en stuttu seinna hringir Ingólfur í Einar og spyr hvort þessi sending sé farin af stað. Svo er ekki og segir Ingólfur að mögulega sé þetta of mikið „drop“ án þess að það sjáist í viðskiptum. Leggur hann til að magnið verði minnkað og ákveða þeir að hafa það 8 milljónir bréfa.

Aðspurður út í samræðurnar segir Einar að þarna telji hann að verið sé að færa bréf til Svíþjóðar til að bankinn geti selt þar allt að 2% í stórri sölu. Það megi lesa úr ummælum Ingólfs fyrr í samtalinu. Hann geti aftur á móti ekki fullyrt um það og þurfi Ingólfur að svara fyrir það.

Segir Einar að ekkert óeðlilegt sé við þessa sendingu, enda breyttist ekkert gagnvart eignarhaldi eigin viðskipta eða eftirliti bankans.  Segist hann aldrei hafa framkvæmt eitthvað „trikk“ ef það væri eitthvað óeðlilegt við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert