Íslendingar ekki allir í sama báti

Um þúsund manns tóku þátt í kröfugöngu á Selfossi í …
Um þúsund manns tóku þátt í kröfugöngu á Selfossi í dag.

„Vorsins 2015 verður minnst um langan tíma í verkalýðssögunni,“ sagði Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, í hátíðarræðu sinni á Selfossi í dag. Hún sagði kjaftæði að Íslendingar væru allir í sama báti.

„Við stöndum í miðjum átökum, þeim hörðustu sem hafa verið á vinnumarkaði í áratugi. Svona átök spretta ekki upp úr engu og eiga sér langan aðdraganda,“ sagði Drífa. Hún sagði uppskriftina að samstöðu og stuðningi í samfélaginu m.a. fela í sér ósanngjarna skiptingu auðs og óbilgirni viðsemjenda.

„Þegar fótunum var kippt undan samfélaginu okkar árið 2008 fór af stað sú lífseiga saga að við værum öll í sama báti. Það er kjaftæði því við höfum aldrei öll verið í sama báti. Í hruninu misstu sumir lífsafkomu sína en aðrir gátu reddað sér með því að skrá íbúðina sína á eignarhaldsfélag. Sumir komust í uppgrip í skilanefndum á meðan aðrir þurftu að flytja inn til foreldra sinna á nýjan leik. Við erum ekki og höfum aldrei verið öll í sama báti. Við gerðum okkur hins vegar öll grein fyrir því að staða landsins var erfið og vissum að það væri ekki mikið að sækja í kjarabótum. Þessi staða er gjörbreytt hin allra síðustu ár. Við getum valið hvort við ætlum aftur í ruglið sem var fyrir hrun og kom á endanum niður á lífskjörum okkar eða við getum valið að byggja sanngjarnara þjóðfélag þar sem stefnt er að jöfnuði, velferð og réttlæti! Aðeins þannig er hægt að ræða um stöðugleika, þegar því er náð. Stöðugleiki sem byggir á ósanngjarnri misskiptingu auðs og löskuðu velferðarkerfi er ekki stöðugleiki sem hæg er að sætta sig við.“

Drífa sagði ýmsa mælikvarða til að mæla gott samfélag, m.a. tækifæri til menntunar, tækifæri til heilbrigðis, aðgang að náttúru og hreinu lofti. Þá væri það ekki ósanngjörn krafa að geta lifað á átta stunda vinnudegi.

Hún sagði að skilaboðin frá verkafólki hefðu verið skýr: 300 þúsund króna lágmarkslaun.

„Með þessa kröfu fóru formennirnir til atvinnurekenda sem að sjálfsögðu höfðu aldrei séð þvílíka kröfuhörku. Orðið sem var oftast notað var „ábyrgðaleysi“. Hvað með vextina? Hvað með verðbólguna? Hvað með stöðugleikann?

Verkafólk var ekki ginkeypt fyrir slíkum áróðri enda hafa engir aðrir verið gerðir ábyrgir fyrir vöxtum, verðbólgu og stöðugleika. Þegar hæst launuðu stéttirnar voru hækkaðar um tugi og jafnvel hundruð þúsunda var ekkert rætt um að hér færi allt til fjandans. Ekki heldur þegar 80 milljörðum var stráð yfir samfélagið í skuldaleiðréttingu - aðgerð sem var ekki til að jafna kjörin og var svo sem ekki ætluð til tekjujöfnunar heldur. Þegar verkafólk kemur hins vegar með kröfur um að geta lifað á laununum sínum þá fer allt til fjandans - þvílíkt bull!“

Drífa segist hafa fengið fjölda skeyta á síðustu dögum, stuðningsyfirlýsingar, frá frændum á Norðurlöndunum og félögum í Suður-Ameríku og Eyjaálfu. „Ómurinn berst um heiminn - á Íslandi er barist fyrir mannsæmandi grunnlaunum og við styðjum skilyrðislaust baráttuna og réttinn til að leggja niður vinnu til að fá kröfunum framgengt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert