Óku ölvuð á ljósastaur

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Kl. 5 í nótt var tilkynnt að ekið hefði verið á ljósastaur á Sæbraut/Miklubraut. Bifreiðinni var ekið af vettvangi en fannst skömmu síðar. Tveir voru handteknir grunaðir um ölvun við akstur og rætt var við fólkið og teknar skýrslur þegar rann af því.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu um atburði næturinnar og dagsins.

Kl. 15.19 var tilkynnt um að krakkar væru að kveikja eld í sinu við Laugardalshöll og var slökkvilið kallað á vettvang.

Einn ökumaður var stöðvaður á Vífilstaðavegi kl. 6 í morgun, grunaður um ölvun við akstur, og annar var stöðvaður kl. 15.19 á Hringbraut, vegna gruns um vímuefnaakstur. Viðkomandi hafði verið sviptur ökuréttindum.

Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki kl. 5 í nótt á svæði lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Þá var tilkynnt um tvo þjófnaði í verslunum í höfuðborginni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert