Mögulega hert á undanþáguveitingum

Ýmsum aðgerðum hefur verið frestað á Landspítalanum vegna verkfalls BHM.
Ýmsum aðgerðum hefur verið frestað á Landspítalanum vegna verkfalls BHM. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar Bandalags háskólamanna, segir að ríkið sé enn ekki tilbúið að bjóða meira en 3,5 prósenta launahækkun. Það sé því til skoðunar hjá BHM hver næstu skref verði.

Nefnir hann til að mynda að hingað til hafi forystumenn BHM reynt að hafa þau áhrif að undanþágunefndirnar tækju mildilega á beiðnum um undanþágur. Nú sé staðan hins vegar sú að mögulega sé kominn tími á að hætta slíkum tilmælum.

Tæplega mánuður er liðinn frá því að geislafræðingar, lífeindafræðingar, náttúrufræðingar og ljósmæður á Landspítala fóru í ótímabundið verkfall ásamt lögfræðingum hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrri verkfallslotunni, sem hófst 7. apríl, fóru 560 félagsmenn í verkfall og 17 í seinni verkfallslotunni sem hófst 9. apríl.

Þá hófu 99 félagsmenn verkfall 20. apríl síðastliðinn, þegar dýralæknar, háskólamenn á matvæla- og næringarsviði og náttúrufræðingar Matvælastofnunar lögðu niður störf ásamt háskólamenntuðum starfsmönnum Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Verkfallið hjá Fjársýslu ríkisins er tímabundið og lýkur þann 8. maí næstkomandi.

Næsti fundur BHM og ríkisins verður á morgun kl. 13 í Karphúsinu. Páll segir að báðir aðilar hafi ætlað að skoða ákveðin atriði fyrir fundinn. „Það hjálpar eitthvað til en breytir ekki þeirri heildarmynd að ríkið er ekkert að hreyfa sig frá þessum 3,5 prósentum,“ segir hann. Sú tala hefur staðið BHM til boða alveg frá því að samningaviðræður hófust.

Aðspurður hvort búast megi við hertum verkfallsaðgerðum svarar Páll játandi. „Við munum örugglega þurfa að gera það til að klára þetta dæmi. Það er engin hreyfing,“ segir hann.

Páll segir það nú til skoðunar hvaða möguleikar séu fyrir hendi og ræður næsta vika miklu um hvað verður.

„Undanþágur eru í höndum ákveðinna aðila, sem við höfum ekki beint forræði á. Við höfum hingað til reynt að hafa þau áhrif að menn fari vægilega í þetta. Það er spurning hvort við förum að slaka á þeim tilmælum,“ segir Páll.

Meðal þeirra sem eru í verkfalli eru dýralæknar sem sinna …
Meðal þeirra sem eru í verkfalli eru dýralæknar sem sinna eftirliti við slátrun. Fá þarf undanþágu til að slátra dýrunum á meðan verkfallinu stendur. mbl.is/Árni Sæberg
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert