Fundi lauk án árangurs

Samninganefnd BHM hjá Ríkissáttasemjara í síðasta mánuði.
Samninganefnd BHM hjá Ríkissáttasemjara í síðasta mánuði. Ómar Óskarsson

„Þetta bara gekk ekkert,“ segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, spurður um fund nefndarinnar og samninganefndar ríkisins sem fram fór hjá Ríkissáttasemjara í dag. Fundinum lauk klukkan 14 í dag án árangurs. Ekki hefur verið boðað til næsta fundar.

Að sögn Páls þokaðist ekkert í viðræðunum í dag. 

„Það eru tvö aðalatriði sem við erum að fást við. Ríkið hangir ennþá í þessum 3,5 prósentum sem er allsendis óaðgengilegt. Í öðru lagi finnst okkur að það þurfi að koma skýrara ákvæði í kjarasamningum um hvernig menntun er metin til launa,“ segir Páll. „Hvorugt gekk.“

Verkfallsaðgerðir félagsmann BHM hafa nú staðið yfir í tæpar fimm vikur. Samkvæmt tilkynningu BHM lítur félagi svo á að fjármála- og efnahagsráðherra og samninganefnd hans eigi næsta leik í viðræðunum. „Á meðan ríkið sýnir enga viðleitni til þess að leysa þessa deilu eru yfirstandandi verkföll og áhrif þeirra alfarið á ábyrgð þess,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert