Geta ekki valið að fara upp á Akranes

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Gunnlaugur Árnason

Guðjón Brjánsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, kveðst aðspurður ekki hafa orðið var við aukningu aðgerða á Akranesi vegna verkfalls á Landspítalanum í Reykjavík.

Heimildir mbl.is herma að þunguð kona, sem vildi gagnast undir keisaraskurð í Reykjavík en komst ekki strax að, hafi gengist undir keisaraskurð á Akranesi þar sem hún og faðir barnsins óttuðust um öryggi ófædds barns síns. 

Tilvikið af læknisfræðilegum ástæðum

„Það er hugsanlega eitt tilvik þar sem kona fór í keisara hjá okkur frekar en í Reykjavík. Læknarnir höfðu þá samráð og töldu það besta kostinn að fá hana hingað í keisarann,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

Segir hann tilvikið hafa verið af læknisfræðilegum ástæðum, foreldrar geti ekki sjálfir valið um að fara upp á Akranes ef um valkeisaraskurði er að ræða. 

Verkföll starfsstétta innan BHM hafa valdið röskun á spítölum og annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Fjölda aðgerða hefur verið frestað og embætti landlæknis fylgist með ástandinu. Ótímabundið verkfall félagsmanna í Ljósmæðrafélagi Íslands hófst 7. apríl og eru ljósmæður á Landspítalanum í verkfalli þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga þar til samningar nást.

„Það er auðvitað um annað að ræða ef þetta eru bráðakeisarar, þeir eru bara afgreiddir eins og venjulega í Reykjavík. Við höfum því ekki orðið vör við aukningu hjá okkur vegna þessa ríkjandi ástands,“ sagði Guðjón í samtali við mbl.is. 

Guðjón Brjánsson er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands
Guðjón Brjánsson er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert