Eyddu ekki póstum eins og sérstakur

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings sést hér koma í Héraðsdóm …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings sést hér koma í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Tölvukerfin hjá Kaupþingi voru ekki eins og hjá sérstökum saksóknara, þar sem hægt var að eyða póstum, heldur var tekið afrit daglega og skjöl geymd utan bankans. Þetta er meðal þess sem Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður Kaupþings, sagði í yfirheyrslu fyrir dómi í dag, en ljóst er að það andar mjög köldu á milli hans og saksóknara í málinu, Birni Þorvaldssyni.

Talsverður pirringur

Í ávarpi sínu sagði Sigurður Björn meðal annars hafa logið upp á sig og yfirheyrslan hefur litast af mjög höstum svörum frá Sigurði sem reglulega fylgja nokkrar pillur í áttina til saksóknara eða yfirvalda. Sömuleiðis hefur saksóknari ítrekað spurt út í atriði sem Sigurður hefur ítrekað sagt að hann hafi ekki haft neinar upplýsingar um. Þetta hefur skapað talsverðan pirring ákærða.

Málið snýst um upplýsingatölvupósta sem sendir voru frá starfsmanni eigin viðskipta til Sigurðar, en Sigurður segist ekki vita til að hann hafi fengið þá. Segist hann meðal annars hafa beðið sérstakan saksóknara um að skoða málið nánar með að kíkja á afrit af tölvupóstkerfi bankans og sjá hvort pósturinn hafi í raun borist honum. Saksóknari virðist aftur á móti ekki hafa athugað það, því aðeins er vitnað í úthólfið hjá starfsmanninum.

Ekki að taka próf í verðbréfaviðskiptum

Svör Sigurðar hafa verið nokkuð beinskeytt og falið í sér gagnrýni á saksóknara hingað til. Meðal annars spurði Björn hann um reglur í verðbréfaviðskiptum. Sagði Sigurður þá að hann væri ekki í dómsal til að taka próf í verðbréfaviðskiptum. Dómari tók undir það með ákærða og sagði að hann væri hér til að svara ákæruliðum. Saksóknari laumaði þá einu skoti á Sigurð og var greinilega ósáttur við svör hans hingað til. „Það væri allavega gott að fá svar við þeim spurningum,“ sagði Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert