Símaskrá vekur athygli á táknmáli

Símaskráin kynnir nýtt þjónustunúmer, 1818
Símaskráin kynnir nýtt þjónustunúmer, 1818 Ljósmynd/Já

Símaskrá 2015 er komin í dreifingu en að þessu sinni er útgáfa hennar í samstarfi við Félag heyrnarlausra. Markmið samstarfsins er að kynna og vekja athygli á táknmáli fyrir Íslendinga.

Inniheldur símaskráin nú fræðsluefni um Félag heyrnarlausra en félagið heldur upp á 55 ára starfsafmæli í ár. Í símaskránni er að finna fræðslukafla en í honum má finna upplýsingar um sögu félagsins og algengustu tákn á táknmáli. Einnig má finna táknmálstákn á ýmsum stöðum í símaskránni.

Símaskráin hefur komið út frá árinu 1905 en útgáfan í ár markar viss tímamót. Þann 1. maí tók númerið 1818 formlega við af númerinu 118 sem miðlun upplýsinga og þjónusta hjá Já. Þjónustufulltrúar munu veita sömu þjónustu allan sólarhringinn í 1818 líkt og var í 118.

Símaskráin verður aðgengileg víða um landið

Á höfuðborgarsvæðinu verður Símaskráin 2015 aðgengileg á morgun í verslunum Símans, Vodafone og Tals, afgreiðslustöðvum Póstsins, verslunum Nettó og á skrifstofum Já í Glæsibæ og á Stórhöfða.

Á landsbyggðinni verður hægt að nálgast Símaskrána frá og með morgundeginum á afgreiðslustöðvum Póstsins, í verslunum Símans, Vodafone og Tals á Akureyri, Skrifstofu Já Iðavöllum 12a í Reykjanesbæ og verslunum Nettó á Akureyri, Egilsstöðum, Borgarnesi og Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert